Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E36
Höfundar / Authors: Ása L. Aradóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Landbúnaðarháskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Ása L. Aradóttir
Vistheimt (ecological restoration) er ferli sem hjálpar bata vistkerfa er hafa hnignað eða eyðilagst og stuðlar að endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni. Í aðgerðaráætlun um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála er meðal annars lögð áhersla á samlegðaráhrif loftlagsaðgerða og alþjóðlegra skuldbindinga um vernd líffræðilegar fjölbreytni. Leiðir til þess eru einkum bætt landnýting og endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis. Rannsóknir benda til þess að þetta sé mögulegt; landgræðsluaðgerðir geti til lengri tíma stuðlað að bættri starfsemi vistkerfa, kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri (eða minni losunar) og endurheimt gróðursamfélaga. Útkoman er þó háð ýmsu, svo sem tegundavali, aðferðum, upphafsástandi og landnýtingu á viðkomandi svæði. Því er þekking á lykilferlum vistheimtar, svo sem gróðurframvindu, og áhrifum ofangreindra þátta á þá grundvöllur fyrir skipulag aðgerða. Sem dæmi ná nefna að sjálfsáning er mikilvirk leið til að endurheimta birkiskóga og kjarrlendi. Slík endurheimt getur stuðlað að endurreisn líffræðilegrar fjölbreytni og skilað umtalsverðri bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi á víðfeðmum svæðum með hlutfallslega litlum tilkostnaði. Þar sem fræframboð er nægt og skilyrði góð geta þessar tegundir dreifst mjög hratt út en annars lítið eða alls ekki. Þekking á vistfræði birkis og víðis—svo sem fræframleiðslu, frædreifingu og landnámi—getur því skipt sköpum við skipulag aðgerða.