Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E35
Höfundar / Authors: Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Háskóli Íslands, Líf- og umhverfisvísindastofnun
Kynnir / Presenter: Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Náttúruleg vistkerfi einkennast gjarnan af áberandi mynstri á misstórum kvörðum. Þannig skiptast á blettir þar sem ólíkar tegundir eru ríkjandi og endurspegla m.a. jarðvatnsstöðu, eiginleika jarðvegs, snjóalög, vindafar, skjól og beitarval stórra grasbíta. Land vaxið grösum eða lágvöxnum jurtum hefur aðra sjónræna eiginleika en skógur og upplifun þess sem fer um landið er mjög ólík. Landnýting og ræktun hefur alltaf áhrif á samsetningu gróðurs og þar með á yfirbragð lands. Ræktun felur oftast í sér að fjölbreytni á landslagskvarða minnkar og fjölmargar erlendar rannsóknir sýna að þaulræktun nútíma landbúnaðar hefur leitt til einsleitara landslags samanborið við eldri landbúnaðarhefð. Eitt megineinkenni ágengra plöntutegunda er að þær verða ríkjandi í gróðri á víðáttumiklum svæðum. Hér á landi er útbreiðsla lúpínu besta dæmið um hvernig ágeng tegund breytir landi með fjölbreytta ásýnd og mósaík ólíkra bletta í einsleit flæmi. Hingað til hafa skógræktarverkefni ekki þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum, og sjónræn áhrif hafa ekki því heldur ekki verið metin.
Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar mun hafa mikil áhrif á landslag. Séð úr fjarlægð munu sjónrænar breytingar felast í breyttu mynstri, litum og áferð. Þegar grasi grónu landi eða mólendi er breytt í skógi vaxið land hverfa smærri einkenni á yfirborði, litlir lækir, tjarnir, hólar og lægðir. Plantekrur með sígrænum barrtjárm eru dökkar ásýndum allt árið og sýna minni breytileika í lit eftir árstíðum en t.d. birkiskógar.