Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster E34

Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og langtímaáhrif hennar á þurrlendisvistkerfi Íslands

Höfundar / Authors: Kristín Svavarsdóttir

Starfsvettvangur / Affiliations: Landgræðslan

Kynnir / Presenter: Kristín Svavarsdóttir

Í júlí 2019 var kynntur sá hluti aðgerðaráætlunar stjórnvalda sem snýr að átaki í kolefnisbindingu, „Bætt landnýting í þágu loftslagsmála. Kolefnisbinding og samdráttur í losun frá landi“. Fimm aðgerðir voru kynntar: 1) efling nýskógræktar til kolefnisbindingar, 2) efling landgræðslu til kolefnisbindingar, 3) hertar takmarkanir á framræslu votlendis ásamt bættu eftirliti, 4) átak í endurheimt votlendis og 5) samstarf við sauðfjárbændur um kolefnisbindingu. Þrjár af fimm aðgerðum snúa að þurrlendisvistkerfum Íslands, þ.e. 1, 2 og 5. Í áætluninni er lögð áhersla á að tekið verið tillit til þeirra lagalegu bindinga alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, s.s. Samning Sameinuðu þjóðanna um vernd og líffræðilega fjölbreytni, Bernarsamninginn, Ramsarsamninginn, auk annarra leiðbeinandi samninga, Aðgerðum er einnig ætlað að styðja við aðra stefnumótun stjórnavalda á sviði umhverfismála. Fyrirhuguð aukning í skógrækt og landgræðslu mun hafa mikil áhrif og því er nauðsynlegt að skoða möguleg langtímaáhrif þessara aðgerða áður en hafist er handa. Ef um möguleg neikvæð áhrif er að ræða er mikilvægt að þau séu greind og metið hvernig unnt sé að koma í veg fyrir þau. Í málstofunni Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum – hvað þýðir hún fyrir framtíð þurrlendisvistkerfa Íslands? á Líffræðiráðstefnunni 2019 munu lífræðingar greina kosti og galla áætlunarinnar og greina mögulegar afleiðingar fyrir þurrlendisvistkerfi landsins frá mismunandi sjónarhornum.