Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E28
Höfundar / Authors: Jóhannes Guðbrandsson (1), Benjamín Sigurgeirsson (2), Han Xiao (2), Sigurður Már Einarsson (1), Guðni Guðbergsson (1), Arnar Pálsson (2), Sigurður S. Snorrason (2), Zophonías O. Jónsson (2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hafrannsóknastofnun, Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, 2. Líf- og umhverfisvísindastofnun, Háskóla Íslands
Kynnir / Presenter: Zophonías O. Jónsson
Bleikja (Salvelinus alpinus) er hánorræn tegund en þrátt fyrir mikla aðlögunarhæfileika virðist hún eiga erfitt með að aðlagast hækkandi hitastigi. Skýr merki eru um að bleikjustofnar í láglendisvötnum hafi látið undan síga. Bleikja sem dvelur hluta ævi sinnar í sjó kallast sjóbleikja og er hún eftirsótt til sportveiða vegna stærðar og bragðgæða. Veiði í sjóbleikjuám hefur dregist saman síðustu tveimur áratugum.
Markmið verkefnisins er að athuga hvort þessi samdráttur í veiði endurspegli minnkaða stofnstærð sem hafi þá komið fram í minni erfðabreytileika í sjóbleikjustofnum. Valdir voru níu sjóbleikjustofnar og til samanburðar tveir staðbundnir stofnar: Mývatnsbleikja, en þekkt er að stofninn hafi dregist verulega saman á síðustu áratugum, og murta úr Þingvallavatni, en stofn hennar hefur að öllum líkindum verið mjög stór síðustu aldir. Beitt var skerðisetatengdri raðgreiningu (RAD sequencing) til að kanna tíðni erfðabreytileika víðs vegar í erfðamenginu. Kannaður var erfðabreytileiki innan stofna, skyldleiki milli þeirra og beitt var prófum sem greina breytingar á virkri stofnstærð (effective population size). Gögnin sýna að erfðafræðilega greinast stofnarnir skýrt í sundur. Þá reyndist erfðabreytileiki hærri í sjógöngustofnum en í þeim staðbundnu. Prófanir á stofnstærðarbreytingum eru í vinnslu og verða ef til vil kynntar.