Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E26
Höfundar / Authors: Christian Prip (Fridtjof Nansen Institute, Norway), Thor Hjarsen (WWF: World Wildlife Fund, Denmark), Bjørn Bedsted (Danish Technological Board, Denmark) og Mette Gervin Damsgaard (Nordic Council).
Starfsvettvangur / Affiliations: Norrænt samstarf: Norðurlandaráð, Norræna ráðherranefndin og Ungmennaráð Norðurlandaráðs (UNR)
Kynnir / Presenter: Elva Hrönn Hjartardóttir
Sáttmálinn um líffræðilegan fjölbreytileika og varðveislu vistkerfa í heiminum var undirritaður af 196 ríkjum árið 1992, ásamt samningi um loftslagsbreytingar og spornun gegn hlýnun jarðar. Árið 2010 settu aðildarríkin að samningnum sér sérstök markmið, svokölluð Aichi markmiðin, og áætlun um hvernig þessum markmiðum skyldi náð fyrir árið 2020. Um 20 markmið er að ræða. Síðastliðið vor kom út skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna (IPBES skýrslan um stöðu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni) sem varpaði ljósi á stöðu markmiðanna. Fæstum markmiðunum hafði verið náð í átt að líffræðilegum fjölbreytileika og varðveislu vistkerfa í heiminum og voru niðurstöðurnar í raun sláandi. Markmiðin höfðu fallið í skuggann af markmiðum sem snúa að loftslagsbreytingum þegar þetta tvennt hefði í raun átt að haldast í hendur.
Í október 2020 munu fulltrúar aðildarríkjanna 196 að sáttmálanum um líffræðilegan fjölbreytileika koma saman í Kína til að skrifa undir nýjan rammasamning. Nú á dögunum hófust formlegar samningaviðræður á vegum SÞ þar sem fulltrúar aðildarríkjanna komu saman í Nairobi, Kenya, til að ræða markmið, aðferðir, aðkomu ríkjanna og tímaramma. Sendinefnd ungs fólks á Norðurlöndunum var viðstödd þennan fyrsta fund samningaferlisins og gaf þar út verkfærakistu (e. toolkit) fyrir ungt fólk til að auðvelda því aðgang að samningaferlinu. Verkfærakistunni er ætlað að stuðla að vitundarvakningu meðal ungs fólks um líffræðilega fjölbreytni og safna saman skoðunum og tillögum ungs fólks fyrir nýja rammasamninginn og verður niðurstöðum komið til stjórnvalda á Norðurlöndunum.