Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E25
Höfundar / Authors: Jónína S. Þorláksdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Rannsóknastöðin Rif
Kynnir / Presenter: Jónína S. Þorláksdóttir
Aðkallandi málefni tengd umhverfinu og nýtingu auðlinda, svo sem gróður og jarðvegseyðing, eiga yfirleitt rætur að rekja til flókins samspils félagslegra og vistfræðilegra ferla. Þau geta því oft reynst erfið viðureignar. Til að þróa raunhæfar lausnir við slíkum áskorunum á sviði sjálfbærni er nauðsynlegt að samþætta vísindalega, opinbera og staðbundna þekkingu á grunni samvinnu ólíkra hagsmunaaðila. Í erindi þessu er velt upp fræðilegu mikilvægi þverfaglegra rannsókna og hvernig samþætting þekkingar í gegnum þátttökuaðferðir getur haft áhrif á vægi og trúverðugleika vöktunar og rannsókna. Sérstaklega verður litið til rannsókna sem beinast að því að skapa grunn fyrir aðgerðir í átt að sjálfbærari landnýtingu. Í slíkum tilfellum getur nýting þátttökuaðferða í gegnum rannsóknarferlið átt hlut í að tryggja skilvirk skoðanaskipti og að tekið sé mið af ólíkum sjónarmiðum og þörfum þeirra sem koma til með að hagnýta þá þekkingu sem skapast. Þá getur þátttökuferlið aukið skilning og greitt fyrir upplýsingaflæði sem nýtist við mótun og þróun verkefna á sviði landnýtingar, stuðlað að aukinni meðvitund um ástand lands og hvað felst í sjálfbærri nýtingu auðlinda.