Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E23
Höfundar / Authors: Jóhann Helgi Stefánsson, Bryndís Marteinsdóttir, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Guðmundur Halldórsson, Iðunn Hauksdóttir, Jóhann Þórsson, Kristín Svavarsdóttir og Sigþrúður Jónsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Landgræðslan, Gunnarsholti, 851 Hella
Kynnir / Presenter: Jóhann Helgi Stefánsson
GróLindarverkefnið byggir á samkomulagi milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands, Landgræðslunnar og Landssamtaka sauðfjárbænda. Verkefnið er fjármagnað til 10 ára í gegnum gildan búvörusamning og hefur Landgræðslan yfirumsjón með framkvæmd þess.
Verkefninu er ætlað að vakta gróður- og jarðvegsauðlindir landsins með það að augum að meta ástand þeirra og gera breytingar á landnýtingu ef þörf er á. Góðar upplýsingar um vistkerfi landsins, áhrif mismunandi landnýtingar á þau, eru forsenda sjálfbærrar landnýtingar. Verkefninu er einnig ætlað að þróa sjálfbærnivísa fyrir landnotkun en þeir verða byggðir á rannsóknum, fyrirliggjandi þekkingu og niðurstöðum vöktunarverkefnisins.
Verkefnið er unnið í samvinnu við vísindasamfélagið, landnotendur og aðra hagsmunaaðila. Hluti af þeirri samvinnu er að fá landnotendur til að vakta ástand þeirra svæða sem þeir nýta. Settir verða út fastir mælipunktar þar sem landnotendur munu skrá ástand lands á hverju ári í þar til gert smáforrit. Þessar upplýsingar munu svo nýtast ásamt nákvæmari mælingum vísindamanna til að meta ástand og breytingar á gróður- og jarðvegsauðlindum Íslands.
Þátttaka landnotenda mun gera vöktunina víðtækari og nákvæmari. Samstarf milli vísindamanna og landnotenda eykur þekkingarflæðið og traust á milli hópa, sem leiðir af sér að sú þekking sem aflast í verkefninu stuðli að sjálfbærri landnýtingu.