Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E15
Höfundar / Authors: Stefán Ragnar Jónsson, Tim Aberle, Valgerður Andrésdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Kynnir / Presenter: Stefán Ragnar Jónsson
Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum. Dæmi um slíkt er lentiveiruhindrinn SAMHD1 sem tjáður er í flestum frumugerðum og stjórnar magni dNTP í frumum. SAMHD1 hindrar lentiveirur í frumum sem skipta sér ekki (eins og makrófögum) með því að halda magni dNTP í lágmarki, þannig að ekki sé nægilegt magn dNTP til víxlritunar. HIV-2 og ýmsar apalentiveirur (SIV) hafa próteinið Vpx sem miðlar niðurbroti SAMHD1 með því að tengjast því og leiða til niðurbrots í próteasómi. HIV-1 og mæði-visnuveira hafa ekki þetta Vpx prótein, og ekki er vitað hvernig þessar veirur komast hjá niðurbroti af völdum SAMHD1 í makrófögum. Í rannsóknum okkar á mæði-visnuveiru kom í ljós að Vif prótein veirunnar tengist SAMHD1 og miðlar niðurbroti þess, og í kjölfarið fundum við að það gerir HIV-1 Vif einnig. Tengsl Vif próteina mæði-visnuveiru og HIV-1 við SAMHD1 voru könnuð með sam-ónæmisfellingu. Geta Vif próteina til að miðla niðurbroti SAMHD1 var könnuð með próteinþrykki eftir DNA-innleiðslu í 293T frumur. Vif prótein HIV-1 og mæði-visnuveiru tengjast SAMHD1 og miðla niðurbroti þess og benda fyrstu niðurstöður til þess að svæði á N-enda HIV-1 Vif próteinsins miðli niðurbroti SAMHD1. Óljóst hefur verið hvernig HIV-1 og mæði-visnuveira koma sér undan SAMHD1 í makrófögum, en svo virðist sem veirupróteinið Vif gæti gengt þar hlutverki.