Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E11
Höfundar / Authors: Guðni Þorvaldsson (1), Hólmgeir Björnsson (2), Þorsteinn Guðmundsson (3)
Starfsvettvangur / Affiliations: Landbúnaðarháskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Guðni Þorvaldsson
Árið 1974 var lögð út stór tilraun á Geitasandi þar sem misstórir skammtar af kúamykju voru plægðir niður í ógróinn sandjarðveg (25, 50, 100 og 150 tonn/ha). Til samanburðar voru tveir meðferðarliðir með tilbúnum áburði (60 og 120 kg N/ha í 17-17-17). Reitirnir vor 13 x 10 m að stærð. Sandurinn var plægður eftir að mykjan hafði verið borin á og síðan var tætt með tætara einu sinni. Vallarfoxgrasi (Engmo) var sáð í tilraunina, 30 kg/ha.
Árið eftir var hverjum stórreit skipt í 3 minni reiti (split plot skipulag) sem fengu mismunandi skammta af tilbúnum áburði næstu 7 árin (100N-20P-50K, 0N-20P-50K og 100N-0P-0K). Tilraunin var tvíslegin þessi 7 ár og lögð niður að þeim tíma loknum. Markmið tilraunarinnar var að mæla áburðargildi kúamykjunnar í samanburði við tilbúinn áburð. Ekkert var gert við tilraunina að þessum 7 árum loknum.
Árið 2015 var tilraunin gróðurgreind aftur og jarðvegssýni tekin úr öllum reitum. Á þessum 40 árum höfðu orðið miklar breytingar á gróðurfari reitanna og þróun í gróðurfari var mismunandi eftir því hver upphaflega tilraunameðferðin var, bæði stórreita- og smáreitameðferð. Vallarfoxgrasið, sem upphaflega var sáð, var nánast alveg horfið. Grös voru mjög áberandi í stórreitum sem fengu mest af kúamykju en krækilyng í reitum sem fengu lítið af mykju og nituráburði. Magn niturs, kolefnis og steinefna í jarðveginum var einnig breytilegt eftir þeirri meðferð sem reitirnir fengu fyrstu 7 árin.