Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster V63

Landfræðilegur breytileiki tveggja gena sem sýna frávik vegna náttúrulegs vals í grunnvatnsmarflónni Crangonyx islandicus

Höfundar / Authors: Brynja Matthíasardóttir, Snæbjörn Pálssin

Starfsvettvangur / Affiliations: Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Brynja Matthíasardóttir

Tvær einlendar tegundir grunnvatnsmarflóa finnast á Íslandi, Crymostygius thingvallensis og Crangonyx islandicus. Fundur þeirra vakti athygli því lífríki Íslands einkennist af lítilli tegundafjölbreytni. Tegundirnar tilheyra ætt sem finnst í grunnvatni. C. islandicus hefur fundist víða á eldvirka svæði landsins en C. thingvallensis er sjaldgæf. Athugun á landfræðilegum breytileika í mtDNA C. islandicus sýndi skýra aðgreiningu stofna innan Íslands sem hafa greinst frá því fyrir síðustu ísöld. Aðgreining þeirra fylgdi landfræðilegum aðskilnaði og styður þá tilgátu að þeir hafi lifað undir jökli á jökulskeiðum ísaldar. Elsta aðgreiningin var milli stofns í N-Þingeyjarsýslu og annarra stofna. Greining á breytileika í innröðum á nDNA og síðar á erfðamörkum víðsvegar úr erfðamengi tegundarinnar úr sýnum frá Þingeyjarsýslum og Þingvallavatni benda t.þ.a. stofnarnir í Þingeyjarsýslum séu skyldari innbyrðis en við stofninn við Þingvallavatn. Erfðamörk úr síðastnefndu greiningunni bentu til áhrifa frá náttúrulegu vali vegna mikillar aðgreiningar milli þessara fjögurra sýna, m.a. erfðamörk úr NADH (mtDNA) og úr H3N (nDNA). Til að greina frekar landfræðilegu frávikin var breytileiki í þessum genum athugaður með því að raðgreina einstaklinga víðsvegar af landinu og erfðabreytileiki þeirra greindur. Breytileiki í NADH styður fyrri greiningar á mtDNA C. islandicus. H3N sýnir aðskilnað sýnatökustaða frá suðurlandi, S-vesturlandi og N-austurlandi í fjórar aðskildar þyrpingar á svipuðum tíma.