Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V46
Höfundar / Authors: Karl Skírnisson
Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöðin á Keldum
Kynnir / Presenter: Karl Skírnisson
Átta tegundir bandorma hafa verið staðfestar sem sníkjudýr í hundum á Íslandi. Fjórum þeirra hefur þegar verið útrýmt en þrjár lifa hér ennþá góðu lífi, m.a. í villtum ref. Áttunda tegundin, vöðvasullsbandormurinn Taenia ovis fannst hér fyrst haustið 1983 þegar vöðvasullir fundust í sláturfé frá nokkrum bæjum. Næstu tvö haust gáfu menn þessu áður ókunna sníkjudýri sérstakan gaum og fundu vöðvasull í sláturfé frá 40 sauðfjárbýlum í átta varnarhólfum um vestan- og norðanvert landið. Algengi vöðvasulls og víðfeðm útbreiðsla bendir til þess að smitið hafi verið til staðar á umræddu landsvæði um árabil. Óvíst er samt hvenær og með hvaða hætti tegundin nam hér land. Ýmsir möguleikar hafa verið nefndir. Höfundur telur líklegast að búrarefir sem fluttir voru inn á 4. áratug síðustu aldar hafi borið bandorminn til landsins - næstu áratugina voru þúsundir refa aldir í búrum víða um land og flutningar alirefa milli landshluta tíðir. Hafi einhverjir refanna komið smitaðir til landsins gátu egg ormsins borist yfir á beitarlönd sauðfjár þegar búr voru hreinsuð heima á bæjum þannig að fé á beit smitaðist af vöðvasulli. Þar sem sauðfjárafurðir voru iðulega notaðar sem refafóður gat sníkjudýrið svo lokið lífsferli sínum innanlands. Síðar gat það borist í heimilishunda. Innflutningsbann á hundum lengst af 20. öldinni er aftur á móti talið minnka líkurnar á því að bandormurinn hafi borist til landsins með hundum. Nefnt hefur verið að gæsir geti hugsanlega borið egg ormsins milli landa.