Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V44
Höfundar / Authors: Halldór Pálmar Halldórsson (1), Hermann Dreki Guls (1), Sölvi Rúnar Vignisson (2), Sunna Björk Ragnarsdóttir (3), Óskar Sindri Gíslason (3)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum, 2) Þekkingarsetur Suðurnesja, 3) Náttúrustofa Suðvesturlands
Kynnir / Presenter: Halldór Pálmar Halldórsson
Styrkur tíu snefilefna (As, Cd, Cr, Cu, Fe, Hg, Ni, Pb, Se og Zn) var mældur í skúfaþangi (Fucus distichus) sem safnað var í júlí 2015 á sjö stöðum í Arfadalsvík vestan Grindavíkur. Mælingarnar voru gerðar að beiðni HS Orku hf. sem hluti af grunnrannsóknum á lífríki svæðisins vegna útrásar affallsvatns frá jarðhitavinnslu í Svartsengi.
Styrkur efnanna var mældur í heilum plöntum annars vegar og hins vegar í blöðum sem klippt voru af plöntunum og endurspegla að líkindum nýlega uppsöfnun efna. Hitastig, selta, súrefni og sýrustig var auk þess mælt í sjó til að meta staðbundinn breytileika sem gæti haft áhrif á upptöku þangsins á snefilefnum.
Talsverður breytileiki reyndist í styrk efna, bæði á milli sniða og milli heilla plantna og blaða, sem að líkindum má rekja til staðbundins breytileika í umhverfisþáttum. Oftast fengust þó sambærileg gildi í heilum plöntum og blöðum en aðeins kom fram marktækur munur í styrk Ni og Se þegar allar stöðvar eru teknar saman þar sem styrkur efnanna reyndist hærri í heilum plöntum. Tiltölulega há bakgrunnsgildi sáust á nokkrum sniðum fyrir Cd, Cr og Hg miðað við norsk umhverfismörk en almennt var styrkur efnanna áþekkur því sem mælst hefur í Norður-Evrópu.
Niðurstöðurnar sýna glöggt þann staðbundna breytileika sem getur komið fram í efnainnihaldi lífvera og má að líkindum rekja til umhverfisþátta. Við framtíðarvöktun og rannsóknir með þang er því mikilvægt að staðla sýnatökur eins og kostur er til að tryggja samanburðarhæfni niðurstaðna.