Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V41
Höfundar / Authors: Anna Heiða Ólafsdóttir og Höskuldur Björnsson
Starfsvettvangur / Affiliations: Hafrannsóknastofnun
Kynnir / Presenter: Anna Heiða Ólafsdóttir
Kolmunni er ein af fjórum helstu uppsjávarfiskitegundum sem veiddar eru við Ísland. Þessi smávaxinn (25 – 35 cm) uppsjávarfiskur er með víðfeðma útbreiðslu í norðaustur Atlantshafi. Útbreiðslusvæði hans nær frá suðurströnd Spánar til Svalbarða og frá strönd meginlands Evrópu til austurstrandar Grænlands. Tegundin er með árstíðarbundið far þar sem kynþroska fiskur (3 ára og eldri) hrygnir á landgrunninu vestan við Írland og Skotland á vormánuðum. Þegar hrygningu lýkur leitar fiskurinn norður í Noregshaf og vestur í áttina til Íslands í fæðuleit yfir sumarið. Uppeldissvæði kolmunna eru víða í Norður Atlantshafi og hluti sumra árganga elst upp við Ísland. Kolmunni finnst við landgrunnsbrúnina fyrir austan, sunnan og vestan Ísland en ekki fyrir norðan þar sem fiskurinn forðast kalda sjóinn í Austur-Íslandsstraumnum. Kolmunni er mikilvægur hlekkur í fæðukeðju hafsins umhverfis Ísland þar sem hann étur aðalega átu og er bráð fyrir botnfiska eins og þorsk og ufsa. Mikilvægi kolmunnann sem bráðar er mest á suðausturmiðum, þar sem hann er mikilvægast fæða botnfiska, og mikilvægið eykst með stærð afræningja þar sem hlutdeild kolmunna í fæðu hækkar eftir því sem þorskur og ufsi verða stærri. Leitast verður við að útskýra hvernig breytingar á magni og útbreiðslumynstri kolmunna í hafinu umhverfis Ísland undanfarna áratugi hafa áhrif á fæðunám botnfiska og hvort kolmunni keppi um fæðu við aðrar uppsjávarfiskitegundir.