Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V38
Höfundar / Authors: Daniel E. Foxler(1), Katherine S. Bridge(1), Sigurður Ingvarsson(2), Tyson V. Sharp(1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskólinn í Nottingham, UK, 2. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Kynnir / Presenter: Sigurður Ingvarsson
Prótein í Ajuba-fjölskyldu stuðla að prótein-prótein samskiptum og þau virka sem tengisameindir í próteinflókum sem taka þátt í umritunarstjórnun. Hif1er lykilumritunarþáttur í efnaskiptum og æðamyndun. Við eðlilegan súrefnisstyrk tengir ensímið Phd hýdroxýlhópa á Hif1, próteinflókamyndun verður og niðurbrot á Hif1 í próteasómum, sem er mikilvægt stjórnunarferli. Limd1 og Vhl eru mikilvæg prótein í þessum flókum, Limd1 sem tengisameind milli Phd2 og Vhl og Vhl sem tengisameindir yfir í ubiquitin-lígasa próteinflóka. Limd1 er í Ajuba-próteinfjölskyldunni ásamt Ajuba og Wtip. Fjarskyldari prótein eru Trip6, Lpp og Zyxin. Til að athuga bindigetu þessara próteina við Phd og Vhl voru framkvæmdar frumuræktunartilraunir þar sem skrúfað var frá og fyrir genatjáningu próteinanna með sameindafræðilegum aðferðum. Ýmsum aðferðum sem greina tengingu milli próteina var beitt. Einnig var umritun greind með notkun sýnigens og notaðir voru hindrar á próteinniðurbrot í frumum. Niðurstöður gáfu til kynna að Limd1 binst öllum þremur gerðum af Phd meðan Wtip og Ajuba bindast eingöngu Phd 1 og 3. Af fjarskyldari próteinunum þremur greindist eingöngu binding milli Trip6 og Phd1. Svæðin í Ajuba-próteinum sem tengjast Phd og Vhl eru aðskilin. Niðurstöðurnar benda til þess að prótein í Ajuba-fjölskyldu virki sem tengisameind milli Phd og Vhl, með misbreiðvirka bindigetu. Álykta má að prótein í Ajuba-fjölskyldu eru mikilvægur hlekkur í stjórnun á niðurbroti Hif1.