Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V3
Höfundar / Authors: Guðný Rut Pálsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöðin á Keldum
Kynnir / Presenter: Guðný Rut Pálsdóttir
Tríkínur eru sníkjuþráðormar af ættkvíslinni Trichinella. Þekktar eru átta tegundir (auk fjögurra mismunandi arfgerða) sem staðfestar hafa verið í öllum heimsálfum, að Suðurskautslandinu undanskildu. Tríkínur lifa í ýmsum tegundum hýsla (spendýrum, fuglum og skriðdýrum), smitleiðin er fyrst og fremst í gegnum inntöku á hráu, lirfusmituðu kjöti. Lífsferillinn er beinn (án millihýsla) og lifa fullorðnir, sérkynja ormar niðri í slímhimnu þarmanna. Eftir mökun verpa kvenormarnir lirfum sem rjúfa sér leið inn í blóðrás hýsilsins og dreifast með henni til allra vefja líkamans. Algengast er að finna lirfurnar í sístarfandi vöðvum svo sem í hjarta og þind. Árið 1998 hófu starfsmenn sýkladeildar Tilraunastöðvarinnar að Keldum leit að tríkínum í sýnum úr hrossakjöti sem ætlað var til útflutnings. Árið 2012, í kjölfar nýrrar matvælalöggjafar, var tekið til við að leita tríkína í kjöti allra hrossa og svína sem slátrað er á Íslandi. Síðan þá hafa starfsmenn sýkladeildar á Keldum skoðað sýni úr tugþúsundum hrossa og hundruðum þúsunda svína. Tríkínur hafa aldrei fundist við þessar rannsóknir. Einu tríkínur sem fundist hafa á Íslandi eru úr hvítabjörnum sem villst hafa til landsins.