Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V24
Höfundar / Authors: Sunneva Hafsteinsdóttir (1), Gunnsteinn Haraldsson (2), Gunnar Þór Hallgrímsson (1), Eva Benediktsdóttir (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræði og náttúruvísindasvið, H.Í., 2. Læknadeild, Heilbrigðisvísindasvið, H.Í.
Kynnir / Presenter: Sunneva Hafsteinsdóttir
Vibrio cholerae er meðalhitakær sjávarbaktería sem hefur einangrast í sjó og fjörum á Íslandi þar sem volgt eða heitt vatn rennur út í fjöruborðið. Umhverfisstofnar þessarar bakteríu eru algengir í volgum sjó, t.d. í Evrópu að sumarlagi, og hafa valdið ýmiss konar sýkingum. Ísland er norðlægasti staðurinn þar sem V. cholerae hefur fundist, og jafnframt eru fundarstaðir bakteríunnar hér umkringdir köldum sjó, þar sem hitastigið er undir vaxtarhita bakteríunnar. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hversu fjölbreyttir eða einsleitir stofnar V. cholerae eru hér við land, og einnig að athuga hvort farfuglar séu mögulegir berar þessarar bakteríu hingað. Sýni voru tekin úr fuglum og úr fjöru í Sandgerði, þar sem ekki rennur heitt vatn niður í fjöruna. Niðurstöðurnar benda til að bakterían eigi greiða leið hingað með fuglum, en bakterían greindist í 30 af 185 vaðfuglum, aðallega sanderlu, en engum af 64 sílamáfum, hins vegar greindist hún í þremur af 10 máfum sem vetursetu eiga hér. Niðurstöður úr Long-Range Eric PCR flokkun benda til þess að fuglastofnarnir og stofnar, sem einangruðust úr fjöru í Sandgerði, séu ólíkir þeim stofnum sem áður hafa verið greindir frá þremur stöðum hér við land. Raðgreining nauðþurftagena verður notuð til þess að greina skyldleika fuglastofnanna við stofna sem greinst hafa annars staðar í heiminum, og verða sýndar fyrstu niðurstöður hennar.