Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster V18

Endurheimt votlendis – þróun vöktunaráætlunar

Höfundar / Authors: Sunna Áskelsdóttir (1) og Ágústa Helgadóttir (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Landgræðsla ríkisins

Kynnir / Presenter: Sunna Áskelsdóttir

Landræn votlendi þekja um 20% af grónu flatarmáli Íslands og ætla má að um helmingur þess eða um 4.200 km2 hafi verið raskað með framræslu. Ráðist hefur verið í um 40 endurheimtarverkefni hérlendis á vegum ýmissa aðila og hefur Landbúnaðarháskóli Íslands frá upphafi sinnt rannsóknum á áhrifum framræslu og endurheimt votlendis. Árið 2016 var Landgræðslu ríkisins falin framkvæmd endurheimtar votlendis í samræmi við Sóknaráætlun ríkisstjórnar Ísland í loftslagsmálum. Veittir voru styrkir til átta endurheimta verkefna sem spönnuðu um 1 km2. Til að vakta árangur var fylgst með breytingum á vatnshæð, en það er sá þáttur sem að knýr breytingar á votlendisvistkerfum. Ljóst er að nánari upplýsinga og grunnrannsókna á lífríki, vatnsbúskap og jafnvægi gróðurhúsalofttegunda er þörf til að meta árangur endurheimtar votlendis. Árið 2017 var lögð áhersla á að meta upphafsástand valdra raskaðra svæða sem fyrirhugað er að endurheimta 2018. Vöktunin hófst sumarið 2017, settir voru upp fastir vöktunarreitir innan algengustu gróðursamfélaga svæðanna til að fylgjast með breytingum á vatnshæð, CO2, CH4, NDVI, gróðri og jarðvegi fyrir og eftir endurheimtaraðgerðir. Einnig var þéttleikamat fugla unnið í samstarfi við Háskólasetur Suðurlands og gróðurkortlagning svæðanna í samstarfi við Náttúrurfræðistofnun Íslands. Vöktunaráætlunin verður kynnt nánar á veggspjaldi ráðstefnunnar.