Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V16
Höfundar / Authors: Bjarni Bjarnason (1), Gestur Ólafsson (1), Guðrún Hallgrímsdóttir (1), Karl Gunnarsson (2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hyndla ehf, 2. Hafrannsóknastofnunin
Kynnir / Presenter: Karl Gunnarsson
Mikil og aukin ásókn er í þörunga um allan heim, ýmist til matar eða til að vinna margvísleg efni úr þeim s.s. fæðubótarefni, efni til lyfjagerðar, í matvælaiðnað, í snyrtivörur og efnaiðnað. Klóblaðka (Schizymenia sp.) er spaðlaga rauðþörungur sem getur orðið 40 cm að lengd. Klóblaðka vex í klettafjörum við Suðvestur- og Vesturland, er bragðgóður matþörungur og talin hafa lækningamátt. Hún er því líkleg til að geta orðið arðbær nytjategund. Oft eru þörungar, sem sóst er eftir að nýta, í það litlu magni í náttúrunni að ekki er unnt að tryggja að tekja þeirra sé sjálfbær. Í sumum tilfellum er mögulegt að rækta þá til að fá nægilegt magn til vinnslu. Það skiptir einnig máli við framleiðslu og markaðssetningu að hægt sé að ná tökum á stýrðri og stöðugri ræktun við kjöraðstæður. Með þetta í huga var ráðist í tilraunaræktun á klóblöðku í Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar við Grindavík. Klóblöðku var safnað í fjöru á Vatnsleysuströnd í lok júlí. 100 blöðkur af svipaðri stærð voru settar í ker með mismunandi lýsingu. Borholusjó (7,7°C, 33 S) er dælt í gegnum kerin og sjór ekki endurnýttur. Styrkur næringarefna (P og N) í borholusjónum er nokkru hærri en í sjónum út af Reykjanesskaga. Á einum mánuði hafa blöðkurnar meira en tvöfaldast að þyngd. Plöntur, sem í upphafi voru þunnar og litlitlar, urðu stinnar og dumbrauðar. Ætlunin er að athuga áhrif breytilegs hita, ljóss og annarra þátta á útlit, efnagæði og vöxt og finna þannig kjöraðstæður fyrir eldi klóblöðku.