Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster E46
Höfundar / Authors: Guðmundur Ingi Guðbrandsson (1), Angela Margerita Jauch (1) og Danielle Elizabeth Beauchemin (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: (1) Landvernd
Kynnir / Presenter: Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) er innflutt, niturbindandi belgjurt frá Alaska sem hefur verið notuð í landgræðslu og skógrækt á Íslandi síðan um miðja síðustu öld. Útbreiðsla hennar og landnám hefur víða valdið áhyggjum hérlendis sökum ágengni tegundarinnar í íslenskum vistkerfum. Samkvæmt reglugerð settri með tilvísan í lög um náttúruvernd er öll ræktun útlendra tegunda hér á landi óheimil ofan 400 metra yfir sjó. Markmið þessa verkefnis var að kortleggja útbreiðslu alaskalúpínu á miðhálendi Íslands. Byggt á þeirri vinnu verður gerð aðgerðaáætlun um upprætingu tegundarinnar á svæðinu. Áhersla er á þátttöku sjálfboðaliða í verkefninu. Leitað var upplýsinga um fundarstaði alaskalúpínu hjá staðkunnugum í þjóðgörðum, á öðrum friðlýstum svæðum, hjá ferðafélögum og víðar vorið 2016. Fundarstaðir sem vitað er um eru um 20 talsins og þar af voru 12 heimsóttir sumurin 2015 og 2016. Útbreiðsla var mjög breytileg, allt frá nokkrum plöntum upp í 1 ha og á sumum stöðum voru fleiri en einn útbreiðslublettur. Kímplantna (nýliðunar af fræi) varð vart á 19 af 20 útbreiðslublettum. Útbreiðsla virðist fyrst og fremst tengd umsvifum manna, sérlega í kringum fjallaskála og á virkjunarsvæðum, en það er þó ekki einhlítt. Gerð hefur verið grunngreining á mögulegum aðferðum við að stemma stigu við útbreiðslu tegundarinnar á miðhálendinu. Það er mat höfunda að uppræting lúpínu sé enn sem komið er viðráðanlegt verkefni á flestum fundarstöðum sem heimsóttir voru, þó það krefjist mikillar og viðvarandi elju við verkefnið.