Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster E40
Höfundar / Authors: Kristinn Haukur Skarphéðinsson (1), Borgný Katrínardóttir (1), Guðmundur A. Guðmundsson (1), Svenja N.V Auhage (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun Íslands
Kynnir / Presenter: Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nýlega skilgreint um 120 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Meginmarkmið eru að afmarka verndarsvæði fyrir forgangstegundir samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, lýsa fuglalífi svæðanna á magnbundinn hátt og leggja grunn að reglulegri vöktun og upplýsingagjöf um viðkomandi fuglastofna. Flest svæðanna (70) eru sjófuglabyggðir og innan þeirra verpur meirihluti af stofnum 15 af 24 íslenskum sjófuglategundum. Um 25 svæði eru fyrst og fremst fjörur og aðliggjandi grunnsævi og gegna þau þýðingarmiklu hlutverki fyrir farfugla eða sem vetrardvalarstaðir. Rúmlega 30 svæði eru inn til landsins og einkennast yfirleitt af lífríku mýrlendi, vötnum og ám. Flest þeirra eru mikilvæg sem varpsvæði en einnig sem viðkomu- og fjaðrafellisstaðir andfugla. Nokkur lindasvæði eru jafnframt mikilvægir vetrardvalarstaðir. Umfangsmiklar talningar á sniðum voru notaðar til að endurmeta stofnstærð algengustu mófugla og þýðingu einstakra vistgerða fyrir þessar tegundir á landsvísu en margir fuglar teljast til ábyrgðartegunda vegna þess hve stórir íslensku stofnar þeirra eru. Kynntar verða helstu niðurstöður með áherslu á notagildi vistgerðakorta til að meta stóra og dreifða fuglastofna.