Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster E36
Höfundar / Authors: Sigurður H. Magnússon (1), Borgþór Magnússon (2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun Íslands, 2. Náttúrufræðistofnun Íslands
Kynnir / Presenter: Sigurður H. Magnússon
Árið 1999 hóf Náttúrufræðistofnun Íslands vinnu við að skilgreina vistgerðir á miðhálendi Íslands, flokka þær og kortleggja. Niðurstöður voru birtar árið 2009. Á árunum 2012–2016 var unnið að rannsóknum á vistgerðum láglendis og á hálendissvæðum utan miðhálendis. Heildarniðurstöður voru síðan birtar í lok árs 2016 í ritinu Vistgerðir á Íslandi. Meginmarkmið verkefnisins var að afla upplýsinga um hvaða vistgerðir er að finna á landinu og kanna stærð og útbreiðslu þeirra. Með flokkun vistgerða er lagður grunnur að sjálfbærri landnýtingu en verndun verðmætra vistgerða er m.a. lykilatriði til að tryggja líffræðilega fjölbreytni.
Verkefnið var mjög viðamikið og unnið í samstarfi margra stofnana og einstaklinga.. Gróður og ýmsir umhverfisþættir voru kannaðir á alls 1.270 stöðum við mismunandi aðstæður víðs vegar um land. Lögð var áhersla á að kanna svæði þar sem breytileiki er mikill og þar sem líklegt þótti að vistgerðir sem njóta sérstakrar verndar í Evrópu væri að finna. Einnig var kannað land þar sem líklegt var að séríslenskar vistgerðir fyndust, einkum hraunasvæði og önnur er tengjast eldvirkni.
Við flokkun lands í vistgerðir var að stórum hluta byggt á gróðursamsetningu og var þar tekið mið af flokkun vistgerða í Evrópu, þ.e. svokallaðri Eunis-flokkun. Við úrvinnslu gagna var beitt fjölbreytugreiningu, bæði TWINSPAN-flokkun og CANOCO-hnitunargreiningu. Niðurstöðurnar leiddu til þess að skilgreindar voru alls 60 landvistgerðir.
Í erindinu verður aðferðum lýst, bæði við öflun upplýsinga á vettvangi og við úrvinnslu gagna. Sýnd verða dæmi um staðreyndasíður þar sem einkennum hverrar vistgerðar er lýst, svo sem tegundasamsetningu plantna, hæð gróðurs, einkennum jarðvegs, fuglalífi og hvar vistgerðina er helst að finna hér á landi. Auk þess er sýnt hvernig vistgerðin flokkast samkvæmt Eunis-kerfinu fyrir vistgerðir í Evrópu.