Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster E23
Höfundar / Authors: Sigríður Jónsdóttir (1), Sara Björk Stefánsdóttir (1), Christine Wimer (2), Bettine Wagner (2), Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (1), Vilhjálmur Svansson (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: (1) Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum, Keldnavegi 3, 112 Reykjavík. (2) College of Veterinary Medicine, Cornell University, Ithaca, NY, USA
Kynnir / Presenter: Lilja Þorsteinsdóttir
Íslenski hesturinn hefur verið einangraður í a.m.k. 1000 ár sem skapar einstakt tækifæri til að rannsaka faraldsfræði smitefna. Hestar hýsa tvær gammaherpsveirur (γ-HV), EHV-2 og EHV-5. Folöld smitast ung frá móður en endursýkingar með öðrum stofnum eru tíðar. Veirurnar valda yfirleitt vægum eða engum sjúkdómseinkennum við frumsýkingu. Folöld fá ónæmisvarnir frá móður með broddmjólk fyrstu mánuðina, þar til ónæmiskerfið er þroskað.
Markmið verkefnisins var að kanna smitferil γ-HV í folöldum og mæðrum þeirra frá köstun að tveggja vetra aldri.
Tekin voru blóð- og nefstrokssýni úr 15 folöldum fyrstu 2 æviárin og úr mæðrunum fyrstu 6-7 mánuðina eftir köstun. Veiruræktun úr hvítfrumum og nefstroki var reynd í hestafrumum. DNA var einangrað úr jákvæðum ræktum og öllum blóð og nefstroksýnum og prófað í qPCR fyrir EHV-2/5. ELISA var gerð til að mæla IgG svörun gegn EHV-2 í sermi.
Veiruræktun tókst frá 5 daga gömlum folöldum, sem er fyrr en áður hefur verið lýst. Ræktunartíðni folalda var mest 3 mánaða. Meirihluti veiruræktanna voru hreinar EHV-2 eða EHV-2/5 blanda. Smitferill veiranna var mismunandi í folöldunum en veirubyrði EHV-2 var í hámarki við 2-3 mánaða aldur en við 5-6 mánaða aldur hjá EHV-5. Heildar IgG svörun hjá folöldum sýndi að mótefni frá móður minnka jafnt og þétt að 3-4 mánaða aldri, eftir þann tíma fara þau sjálf að framleiða EHV-2/5 sértæk mótefni sem ná hámarki við 15 mánaða aldur.
Rannsóknin veitir nýja þekkingu á ónæmisviðbrögðum og smitferli γ-HV í ungum hrossum.