Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster E14
Höfundar / Authors: Ester Rut Unnsteinsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun Íslands
Kynnir / Presenter: Ester Rut Unnsteinsdóttir
Refir eru alíslensk tegund sem hefur verið veidd hér á landi allt frá landnámstíð, ýmist vegna feldar eða til varnar tjóni. Grenjavinnsla, þ.e. veiðar á grendýrum og afkvæmum þeirra, hefur verið stunduð markvisst í það minnsta síðastliðin 250 ár en áhrif hennar á stofnvistfræði refa er óþekkt. Vöktun refastofnsins byggir á veiðigögnum og aldursgreiningum innsendra hræja með aldurs-afla aðferð. Ýmsar aðrar mælingar eru gerðar á innsendum hræjum, m.a. athugun á legi og talning legöra. Tófur eru lífeðlisfræðilega kynþroska í mars á fyrsta vetri, aðeins 10 mánaða gamlar en á flestum útbreiðslusvæðum tegundarinnar tímgast flest dýrin ekki fyrr en 2-3 ára. Til þess þarf maki að vera til staðar og parið þarf að hafa yfir að ráða óðali til að skýla afkvæmum og fæða alla fjölskylduna á vaxtarskeiði ungviðisins. Framboð óðula er takmarkað og því er aðeins hlutfall kynþroska dýra sem fær tækifæri til að taka þátt í tímgun ár hvert. Komið hefur í ljós að á Íslandi er hlutfall eins árs refalæðna með legör (grenlæður) óvenju hátt. Þetta má, að minnsta kosti að hluta til, skýra með því að grenjavinnsla auki möguleika dýranna á að eignast óðal, jafnvel þeirra allra yngstu. Meðganga og mjólkurframleiðsla spendýra er gríðarlega orkufrekt ferli og gæti reynst ungum og óreyndum læðum um megn. Þess ber að geta að geldhlutfall er lágt eftir 2 ára aldur og læður geta tímgast alla ævi þó frjósemi minnki nokkuð eftir 9 ára aldur.
Í þessu skyni voru lífslíkur ungra kynþroska refalæðna metnar og athugað hvort munur sé á þeim sem tímgast og þeim sem eru geldar fyrsta sumarið eftir að þær urðu kynþroska. Tilgátan var sú að það myndi borga sig fyrir ungar læður að bíða með að tímgast, safna orku eftir fyrsta veturinn og öðlast færni í veiðum. Mældar voru 2517 læður sem veiddar voru á árunum 1995-2015 og voru lífslíkur þeirra metnar milli eins og tveggja ára aldurs. Niðurstöður sýna, öfugt við það sem lagt var upp með í upphafi, að þær læður sem eignuðust afkvæmi eins árs höfðu marktækt hærri lífslíkur en þær sem voru geldar fyrsta sumarið eftir kynþroska. Það lítur því út fyrir að íslenskar refalæður geti hámarkað tímgunarárangur sinn með því að byrja snemma að eignast afkvæmi, þrátt fyrir ungan aldur og reynsluleysi. Þetta útspil þeirra getur hafa átt sinn þátt í hröðum vexti refastofnsins á sl. 30 árum en til þess hefur jafnframt þurft auðvelt aðgengi að lausum óðulum og nægt fæðuframboð að vetrarlagi.