Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster E12

Sjást áhrif tófu og minks á fjölda eða dreifingu æðarhreiðra?

Höfundar / Authors: Jón Einar Jónsson, Árni Ásgeirsson

Starfsvettvangur / Affiliations: Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Kynnir / Presenter: Jón Einar Jónsson

Æðarvarpið í Brokey nær yfir 91 smærri og stærri eyjar sem eru leitaðar fyrir æðardún ár hvert. Fyrirliggjandi tölur um fjölda hreiðra 1892-2014 voru metnar m.t.t. sögulegra atburða og umhverfisbreytinga, þ.e. breytingar á fjölda hreiðra, fjölda leitaðra eyja án æðarhreiðra (0 eyja) og hlutfalls hreiðra á 13 stærstu eyjunum ár hvert. Dagbækur Brokeyinga og blaðaviðtöl frá 20. öldinni sýna að tófa kom ekki í eyjarnar fyrr en um aldamótin seinustu en minkur nam þar land 1948. Æðarhreiðrum fækkaði í kjölfar fugladauða Frostaveturinn 1918, á fyrra hlýskeiði (1925-1962) og síðara hlýskeiði (1995-2015). Æðarhreiðrum fjölgaði á báðum kuldaskeiðum (1902-1925 og 1963-1994). Koma minks leiddi til fjölgunar eyja án æðarhreiðra og samþjöppun hreiðra inn að miðjar stærri eyjarnar eftir 1952. Fjöldi hreiðra stóð í stað 1957-1970 á meðan innflutningur á mink var bannaður en samþjöppun í stærri eyjar hélt þó áfram. Tófa kom í eyjarnar í kringum aldamót, fyrsta grenið fannst 2012 en eftir 2010 með lækkaði hlutfall hreiðra í stærri eyjunum auk fækkunar í heildarfjölda hreiðra. Sé fjöldi hreiðra í Brokey borin saman við stofnvísitölur á landsvísu (meðaltöl æðarhreiðra í þekktum æðarvörpum og útflutning á dún ) sést tvennt í Brokey sem gerðist yfirleitt ekki annar staðar: 1) Fækkun æðarhreiðra 1970-1980 miðað við áratugina á undan og fækkun æðarhreiðra 2010-2014 um leið og fyrsta tófugrenið í sögunni fannst 2012. Áhrif tófu og minks eru mismunandi; tófa veldur fækkun í stærri eyjunum meðan minkur gerir það í þeim minni.