Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Vöktun og áhrif tríbútýltins (TBT) síðastliðin 30 ár í grennd við íslenskar hafnir

Höfundar / Authors: Halldór Pálmar Halldórsson, Sandra Dögg Georgsdóttir, Ashvini Victor, Hermann Dreki Guls

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum

Kynnir / Presenter: Halldór Pálmar Halldórsson

Tríbútýltín (TBT) er eitraðasta lífræna tinsambandið og var lengi notað í botnmálningu skipa til að koma í veg fyrir vöxt lífvera. TBT getur bæði drepið lífverur og valdið ýmsum eituráhrifum, þar með talið að raska hormónabúskap lífvera. Nákuðungur (Nucella lapillus L.) er sjávarsnigill sem finnst í fjörum landsins og er tegundin afar viðkvæm fyrir TBT mengun. Áhrifin lýsa sér helst í myndun falskyns (imposex) hjá kvenkys nákuðungum þar sem sáðrás og typpi myndast hjá kvendýrunum. Þessi áhrif ásamt greiningum á styrk lífrænna tinsambanda í vef nákuðunga hafa verið notuð til vöktunar á TBT mengun við Ísland sem hófst árið 1992 fyrir hönd Umhverfisstofnunar og hefur síðan þá farið fram á 5 ára fresti. Fyrstu árin var nákuðungi safnað á 45 stöðum við landið en með minnkandi áhrifum var þeim fækkað. Árið 2018, þegar Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum tók við vöktuninni af Jörundi Svavarssyni prófessor við HÍ, voru upprunalegu vöktunarstöðvarnar 12 og 3 nýjum jafnframt bætt við á Suðurnesjum.
Þrátt fyrir bann við notkun TBT í botnmálningu hér á landi síðan 1990 sjást ennþá rúmum 30 árum síðar greinileg áhrif á nákuðunga þó ástandið hafi batnað mikið frá upphafi vöktunar. Líkt og mörg önnur efni getur TBT bundist lífrænum ögnum og safnast upp í seti, sem þá getur virkað sem mengunaruppspretta í jafnvel áratugi. Það er því mikilvægt að vakta áfram áhrif og styrk þessara efna í íslensku lífríki.