Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Riða í sauðfé á Íslandi og nýlegar rannsóknir á mögulega verndandi arfgerðum.

Höfundar / Authors: Stefanía Þorgeirsdóttir

Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Kynnir / Presenter: Stefanía Þorgeirsdóttir

Riða er talin hafa borist til Íslands árið 1878. Í upphafi var hún takmörkuð við Norðurland, en dreifðist víðar um landið uppúr 1950, fyrir utan nokkur riðufrí svæði. Frá árinu 1978 hefur verið reynt að útrýma riðu, í upphafi með notkun varnarhólfa og niðurskurði á riðuhjörðum, og seinna sótthreinsun á útihúsum, fjárlausum tíma og endurnýjun fjár frá riðulausum svæðum. Þrátt fyrir að tekist hafi að uppræta riðu á stórum landsvæðum er riða enn landlæg á Norðvesturlandi, en örfá tilfelli greinast þar nú árlega.
Riðusmitefnið er umbreytt prótein (príonprótein) og næmi fyrir sjúkdómnum er tengt breytileika í príongeninu. Ræktun á riðuþolnu fé, líkt og gert er víða í Evrópu, hefur þar til nýlega ekki verið val hér á landi, því arfgerðin sem er viðurkennd sem mest verndandi fyrir riðu, ARR, fannst ekki fyrr en nýlega í íslensku sauðfé. Arfgerðin VRQ var hins vegar skilgreind snemma sem áhættuarfgerð og hefur ekki verið notuð á sæðingarstöðvum frá árinu 2008.
Nýleg rannsókn sem fólst í leit að mögulegum verndandi arfgerðum í íslensku sauðfé, leiddi til þess að ARR fannst í fyrsta sinn í íslenskri kind. Skimuð voru um 30.000 sýni, upprunnin frá um þriðjungi sauðfjárbúa landsins og dreifð um allt land. ARR arfgerðin fannst eingöngu á einum bæ á Austurlandi. Hins vegar fannst breytileikinn T137, sem talinn er mögulega verndandi, á átta bæjum. Áætlun til að nýta þessar arfgerðir við kynbætur er þegar farin af stað og mun vonandi gagnast útrýmingu þessa ólæknandi sjúkdóms.