Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Möguleikar á endurheimt lækja og vatna á Mýrum

Höfundar / Authors: Jóhannes Guðbrandsson (1), Iðunn Hauksdóttir (2), Ragna Guðrún Snorradóttir (1,3), Ásgerður Elín Magnúsdóttir (4)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hafrannsóknastofnun, 2. Landgræðslan, 3. Náttúrustofa Norðulands vestra, 4. Landbúnaðarháskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Jóhannes Guðbrandsson

Endurheimt votlendis hefur hlotið athygli síðustu ár sem mikilvæg loftlagsaðgerð þar sem endurheimt grunnvatnsstöðu stoppar losun kolefnis úr jarðvegi. Endurheimt votlendisvistkerfa er einnig gagnleg mörgum tegundum lífvera sem nýta sér ýmist votlendið sjálft eða tengda læki, tjarnir og vötn sem búsvæði. Framræsla votlendis hefur í mörgum tilfellum breytt farvegum lækja, auk þess sem tjarnir og vötn hafi verið þurrkuð upp sem raskar farleiðum og búsvæðum ferskvatnsfiska. Við könnuðum möguleika á endurheimt lækja og vatna í Hraunhreppi á Mýrum með sérstaka áherslu á hrygningarsvæði urriða í lækjum og farleiðir silunga og ála upp læki. Hrygningar- og búsvæði í lækjum voru kortlögð, leitað var að hindrunum á fiskför og útbreiðsla fiska var könnuð. Leiddi það í ljós að framræsla hefur í sumum tilfellum skapað gönguhindranir sem takmarka útbreiðslu fiskitegunda. Hrygningarsvæði fyrir urriða virðist vera af skornum skammti í náttúrulegum lækjarfarvegum og takmarka líklega stofnstærð hans í vötnum á svæðinu. Nokkrir möguleikar á endurheimt eru til staðar sem eru líklegir til að styrkja fiskistofna á svæðinu.