Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Líkamsástand rjúpna og stofnbreytingar

Höfundar / Authors: Ólafur K. Nielsen (1), Guðmundur A. Guðmundsson (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun Íslands

Kynnir / Presenter: Ólafur K. Nielsen

Rjúpa (Lagopus muta) er grasbítur og útbreiddur staðfugl á norðurhjara allt í kring um pólinn, þar á meðal á Íslandi. Íslenski rjúpnastofninn er breytilegur að stærð og rís og hnígur með nokkuð reglubundnu millibili. Áður liðu 10‒12 ár á milli toppa í fjölda fugla en síðan um aldamót eru breytingarnar örari og um 5 ár hafa verið á milli toppa. Við rannsökuðum líkamsástand rjúpna á Norðausturlandi 2006‒2018. Hundrað fuglum (60 ungum og 40 fullorðnum) var safnað í fyrstu viku október ár hvert. Rannsóknir á lýðfræði rjúpu höfðu áður sýnt að stofnbreytingar ráðast af vetrarafföllum og því var þessi söfnunartími valinn, og til að auðvelda samanburð milli ára var söfnunartíminn hafður sem stystur. Ávitar okkar á líkamsástand voru fituforði og fitufrí þurrvigt fuglanna (áviti á prótínforða). Báðir þessir ávitar, leiðrétt fyrir líkamsstærð, sýndu marktækar breytingar á milli ára og eftir kyni fuglanna (kvenfuglar voru með stærri forða), og að auki var marktækur aldursmunur á fitufrírri þurrvigt (fullorðnir fuglar með meiri forða en ungir). Marktæk tengsl voru á dánartölu og líkamsástandi; þegar rjúpur voru í góðum holdum voru vetrarafföll lág að jafnaði og svo öfugt. Samkvæmt þessum niðurstöðum þá ráðast örlög fuglanna af þrifum þeirra á tímabilinu frá júní til september. Hvaða öfl búa hér að baki? Við hugleiðum fjóra kosti í þessu samhengi: (1) sóttkveikjur; (2) fæðu; (3) áhrif rándýra; og (4) veður.