Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Fjölþættar tilraunir á sjávarlífverum á Íslandi

Höfundar / Authors: Einar Pétur Jónsson, Tómas Árnason, Hrönn Egilsdóttir, Agnar Steinarsson

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hafrannsóknastofnun, 2. Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Einar Pétur Jónsson

Þær breytingar sem eiga sér nú stað í umhverfi sjávar hafa eðlilega vakið áhuga á að skoða líffræðilegar afleiðingar þeirra. Tilraunir á viðbrögðum lífvera við breyttum umhverfisaðstæðum hafa til þessa að mestu takmarkast við einn umhverfisþátt í einu, en nú er kallað eftir meiri áherslu á tilraunir með fleiri þætti til að auka raunsæi rannsóknanna. Hafrannsóknastofnun hefur í því samhengi byggt tilraunaaðstöðu til að gera fjölþættar tilraunir á sjávarlífverum. Loðna (Mallotus villosus) er fyrsta tilraunategundin á nýju rannsóknastofunni og áhrif hita- og sýrustigs á vöxt hennar og þróun er rannsóknarefnið. Aðstaðan er kynnt og niðurstöður fyrstu tilrauna auk áskorana slíkra fjölþættra tilrauna í sjó ræddar.