Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Áhrif mengandi efna á krækling (Mytilus edulis) í höfnum á Suðurnesjum skoðuð með notkun lífmerkja.

Höfundar / Authors: Sandra Dögg Georgsdóttir, Halldór Pálmar Halldórsson, Hermann Dreki Guls

Starfsvettvangur / Affiliations: Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum.

Kynnir / Presenter: Sandra Dögg Georgsdóttir

Mengandi efni svo sem fjölhringa kolvatnsefni (e. polycyclic aromatic hydrocarbons, PAH), fjölklóruð tvífenýl efni (e. polychlorinated phenyls, PCB), lífræn tinsambönd og málmar finnast víða um heiminn og eru helstu uppsprettur þeirra vegna athafna mannsins. Hafnir eru sérstaklega útsettar fyrir mengun og eru hafnarsvæði oft helsta mengunaruppsprettan í sjó hér á landi. Kræklingur (Mytilus spp.) er algeng vöktunarlífvera fyrir sjávarmengun víða um heim, þ.á.m. á Íslandi. Áhrif mengunarefna á lífverur eru oft metin með lífmerkjum (e. biomarkers) og eru ýmis lífmerki til. Í þessari rannsókn var notast við algeng lífmerki svo sem virkni ensíma í kræklingi til að kanna mengunarálag í höfnum á Suðurnesjum sem er tiltölulega lítið rannsakað svæði. Kræklingi var safnað í Sandgerðishöfn, Grindavíkurhöfn og Njarðvíkurhöfn, og til viðmiðunar í Hvassahrauni. Markmið verkefnisins var að nota lífmerki ásamt efnagreiningum til að meta möguleg líffræðileg áhrif mengunar í höfnunum.
Niðurstöður lífmerkja sýndu fram á marktækan mun á milli rannsóknastöðva í höfnum og Hvassahrauns sem bendir til mengunarálags í höfnunum. Efnagreiningar sýndu ekki fram á mikla hættu á áhrifum vegna mengunar en þó var styrkur sumra efna yfir umhverfismörkum og jafnvel yfir áhrifagildum. Mengun mun að öllum líkindum halda áfram að aukast með aukinni skipaumferð og er því nauðsynlegt að fylgjast með framvindu mengunar og áhrifum hennar á lífríki sjávar.