Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster V56

Vefsetursgreining á „Icelandic Agricultural Sciences“.

Höfundar / Authors: Sigurður Ingvarsson (1), Bjarni Diðrik Sigurðsson (2), Björn Þorsteinsson (2), Þorsteinn Guðmundsson (2).

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2. Landbúnaðarháskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Sigurður Ingvarsson

Alþjóðlega vísindaritið Icelandic Agricultural Sciences (IAS; www.ias.is) birtir ritrýndar vísindagreinar á ensku um hagnýt náttúrufræði, umhverfisfræði og nýtingu auðlinda. Tímaritið er í opnum rafrænum aðgangi og er eitt af þremur íslenskum ISI vísindaritum. Greinar í IAS koma fram í ýmsum alþjóðlegum vefsetrum. Leit var framkvæmd í vefsetrum Web of Science og Scopus þann 20. september 2019 til að kanna hversu sýnilegt IAS er. Alls voru 76 IAS greinar (2009-2018) í Clarivate Analytics gagnagrunni og 66 (2010-2018) í Scopus gagnagrunni. Vitnað hefur verið í þessar 76 og 66 greinar 367 og 313 sinnum, að meðaltali 4,8 og 4,7 tilvitnanir í hverja grein. Matsstuðlar eru nú 1,00 (Impact Factor) og 0,75 (Cite Score). SJR (SCImago Journal Rank) er 0,242 og SNIP (Source Normalized Impact per Paper) er 0,911. Hirsch-index mælist 10. Sú grein sem oftast var vitnað í fjallar um öskufall og áfok. Web of Science vefsetrið flokkar greinarnar sem vitna í IAS í 67 fræðasvið og Scopus vefsetrið í 22 fræðasvið. Höfundar að greinunum sem vitna í IAS eru frá 498 stofnunum og háskólum víðs vegar í heiminum, í sex heimsálfum og 56 löndum. Vefsetursgreiningin á IAS endurspeglar árangursríkt gæðastarf tímaritsins, fjölbreytt fræðasvið hagnýtra náttúrufræða og gefandi alþjóðlegt samstarf. Árangur útgáfustarfsins er góður og IAS er vel sýnilegt meðal vísindarita sem það er sett í flokk með.