Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster V42

Landnám birkis

Höfundar / Authors: Benedikt Traustason

Starfsvettvangur / Affiliations: Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Benedikt Traustason

Landgræðslan ákvað nýlega að nota framvegis aðeins innlendar plöntur við landgræðslu og endurheimt vistkerfa. Enn skortir þó betri þekkingu á flórunni fyrir val á landgræðslutegundum. Birki (Betula pubescens) er ríkjandi tegund í íslenskum skógum en það getur líka numið land snemma í frumframvindu. Reynsla síðustu ára sýnir að sum röskuð svæði geta gróið upp án þeirrar vinnu og kostnaðar sem fylgir íhlutun mannsins. Það er því ákaflega mikilvægt að afla skilnings á því hvað einkennir lítt eða hálfgróið land þar sem sjálfgræðsla birkis er líkleg (að því gefnu að fræregn sé fyrir hendi). Það gerir landgræðslustarf skilvirkara og getur sparað stórar fjárhæðir.
Síðastliðna áratugi hefur birki numið land og breiðst hratt út á Skeiðarársandi. Markmið þessa verkefnis er að bera stofnvistfræði, æxlunarvistfræði og nýliðun birkisins á Skeiðarársandi saman við nálæg svæði þar sem birki hefur numið land og hafa svipað loftslag en ólíka jarðvegsþætti. Þrjú svæði hafa verið valin: 1) hálfgróið hraun, (Eldgjárhraun, um 1100 ára), 2) hraun með þykka mosabreiðu en strjála þekju æðplantna (Eldhraun, um 230 ára), og 3) brött, skriðurunnin hlíð með grónum og lítt grónum blettum (Hvammabrýr vestan Núpsstaðar). Á öllum þremur svæðunum hefur birki nokkuð nýlega numið land. Stefnt er að því að bera saman aldursdreifingu, samband stærðar og aldurs, vaxtarhraða, mynstur nýliðunar, frjósemi og frægæði og greina möguleika birkis til landnáms og þá þætti sem takmarka landnám og vöxt á ólíku undirlagi.