Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster V35

Áhrif sjókvíaeldis á efnaferla í botnseti

Höfundar / Authors: Rakel Guðmundsdóttir (1,2), Sólveig R. Ólafsdóttir (1) og Hjalti Karlsson (1,2)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hafrannsóknastofnun, Skúlagata 4, 101 Reykjavík. 2. Hafrannsóknastofnun, Árnagata 2-4, 400 Ísafjörður

Kynnir / Presenter: Rakel Guðmundsdóttir

Hafrannsóknastofnun rannsakar áhrif laxeldis í sjókvíum á fjarsvæði eldisins þar sem skoðaðir eru allmargir þættir í vistkerfi fjarðanna. Hér er gerð grein fyrir niðurstöðum þriggja leiðangra árið 2018 og 2019 þar sem samtals voru tekin 120 kjarnasýni af botni í Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og Skutulsfirði. Einnig voru tekin erfðasýni á hvíldu svæði í Arnarfirði. Efnafræðilegir eiginleikar setsins voru mældir með örnemum (microsensors) en slík tækni hefur ekki verið notuð áður við Ísland. Þessar fyrstu niðurstöður bentu til að ekki væri munur á súrefnisstyrk (O2) í seti milli Arnarfjarðar og Ísafjarðardjúps. Hins vegar var marktækt hærri styrkur brennisteinsvetnis (H2S) og lægra pH í Arnarfirði miðað við Ísafjarðardjúp. Afoxunarmætti (redox potential) var hærra í Arnarfirði en í Ísafjarðardjúpi. Niðurstöður frá Skutulsfirði voru frábrugðnar að því leyti að súrefnisstyrkur, pH og afoxunarmætti voru lægri en styrkur brennisteinsvetnis hærri en í hinum fjörðunum. Ljóst er að munur er á milli ýmissa efnabreyta sets á milli svæðanna en erfitt er að svo stöddu að fullyrða hvers vegna munurinn er tilkominn en í langan tíma hefur verið álag frá byggð á Skutulsfjörð. Áframhaldandi vöktun er mikilvæg til þess að skilja betur raunveruleg áhrif fiskeldis utan þeirra svæða sem hefðbundin vöktun á starfseminni tekur til og til þess að styrkja mat á burðarþoli. Einnig bendir ýmislegt til þess að sum svæði verða verr úti eftir eldislotur en önnur svæði, jafnvel innan sama fjarðar.