Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster V11

"""Gamalli"" tegund, klóblöðku, lýst"

Höfundar / Authors: Karl Gunnarsson (1), Steven Russel, (2) Juliet Brodie (2)

Starfsvettvangur / Affiliations: (1) Hafrannsóknastofnun, (2) NHM, London

Kynnir / Presenter: Karl Gunnarsson

Blaðlaga rauðþörungur Schizymenia dubyi vex meðfram austurströnd Norður-Atlantshafsins frá Marokkó til suðurstrandar Englands og Írlands. Tegundin er einnig skráð frá Íslandi. Rannsókn var gerð til að staðfesta deili á tegundinni á Íslandi sem var landfræðilega aðgreind frá meginútbreiðslusvæði S. dubyi og, öfugt við aðrar tegundir ættkvísarinnar, var ekki með svokallaðar kirtilfrumur. Við greindum litberagenið rbcL og hvatberagenið COI í íslenskum eintökum og bárum saman við Schizymenia spp. sýni úr Atlantshafi og Kyrrahafi. Íslensku eintökin voru greinilega frábrugðin S. dubyi og mynduðu greinileg tengsl við Schizymenia tegundir frá Norður-Kyrrahafi. Á grundvelli þessara niðurstaðna höfum við lýst nýrri tegund, Schizymenia jonssonii, sem hægt er að greina út frá erfðafræðilegri sérstöðu og einnig skorti á kirtilfrumum. Tegundin vex, ólíkt öðrum Schizymenia tegundum, einungis í fjörum. Skorpulaga gróliður með sömu COI og rbcL raðir fannst á sömu stöðum við Ísland og blaðlaga plönturnar. Við rannsóknina kom einnig í ljós að tegundin S. apoda sem áður var talin bundin við sunnanvert Atlantshaf og Indlandshaf vex einnig við Bretlandseyjar. Í ljósi þessara niðurstaðna er líklegt að með frekari erfðagreiningum á ættkvíslinni Schizymenia í Norðaustur-Atlantshafi og Miðjarðarhafi komi í ljós að fjölbreytni Schizymenia tegunda er meiri þar en talið hefur verið.