Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster V1

Vöktun vatnafugla á Snæfellsnesi

Höfundar / Authors: Róbert A. Stefánsson (1), Jón Einar Jónsson (2) og Menja von Schmalensee (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrustofa Vesturlands, Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmi. 2. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmi.

Kynnir / Presenter: Róbert A. Stefánsson

Vöktun fuglastofna er mikilvægt upplýsingatæki fyrir verndun tegunda og búsvæða og til að fylgjast með áhrifum umhverfisbreytinga. Þá fæst samanburður við aðra landshluta sem getur sýnt fram á samhæfðar stofnbreytingar á landsvísu eða svæðisbundnar breytingar.
Vöktun vatnafugla á Snæfellsnesi hófst árið 2011. Fuglar eru taldir á aðgengilegum vötnum, tjörnum og ám á sunnanverðu Snæfellsnesi frá Fáskrúðarbakka í Eyja- og Miklaholtshreppi í austri að Barðastöðum í Staðarsveit í vestri. Á norðanverðu Snæfellsnesi er talið á vötnum á Þórsnesi og við Vatnaleið. Talið er tvisvar á ári, um mánaðamótin maí-júní til að meta fjölda varpfugla og svo aftur snemma í ágúst til að meta ungaframleiðslu.
Á veggspjaldinu er sýnd þróun í fjölda helstu tegunda vatnafugla á svæðinu á árunum 2011-2019.
Vatnafuglar eru vaktaðir á sambærilegan hátt á nokkrum stöðum á landinu, einkum Norðausturlandi. Æskilegt væri að gera það á völdum vatnasvæðum um land allt, í samræmi við tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands um vöktun íslenskra fuglastofna.