Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster V52

Pöddulíf í Skúmey

Höfundar / Authors: Hrafnhildur Ævarsdóttir (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Vatnajökulsþjóðgarður

Kynnir / Presenter: Hrafnhildur Ævarsdóttir

Skúmey á Jökulsárlóni byrjaði að koma undan Esjufjallaröndinni á Breiðarmerkurjökli í kringum 1979-1980. Eyjan var öll komin undan jöklinum árið 2000 og var jökullinn lengst viðloðandi norðausturhluta eyjarinnar. Í Skúmey hefur myndast einstakt tækifæri til þess að rannsaka frumframvindu gróðurs og hvernig landnám tegunda fer fram þegar nýtt land kemur undan jökli. Segja má að eyjan sé eins konar Surstey innan Vatnajökulsþjóðgarðar.
Í þessari rannsókn var leitast við að kortleggja pöddulíf í Skúmey. Hvaða tegundir væru til staðar og hverjar væru ríkjandi í vistkerfinu en engin slík rannsókn hefur áður farið þar fram. Níu fallgildrur voru settar niður í þremur 10x10m reitum sem valdir voru handahófskennt í eyjunni. Gildrurnar voru settar niður í maí, júní, júlí og ágúst. Í hvern reit voru setta niður þrjár gildrur í hvert skipti sem hafðar voru í sólahring í senn.
Helstu hópar padda sem fundust í Skúmey voru tvívængjur, áttfætlur, bjöllur, mítlar og mordýr. Flestar þær tegundir sem fundust í fallgildrunum mátti búast við í vistkerfi sem þessu en fáeinar tegundir voru ódæmigerðar fyrir það búsvæði sem Skúmey bíður upp á. Í júní og júlí voru tvívængjur algengastar, en minna var um þær í maí og ágúst. Fleiri áttfætlur komu í fallgildrur í ágúst en hina mánuðina.