Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V13
Höfundar / Authors: Þóra Margrét Bergsveinsdóttir (1), Jóhannes Guðbrandsson (1), Kalina H. Kapralova (1), Arnar Pálsson (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: Líffræðistofnun Háskóla Íslands
Kynnir / Presenter: Þóra Margrét Bergsveinsdóttir
Tegundamyndun er flókið ferli og er mörgum spurningum um það ósvarað. Í tilfellum þar sem stofnar hafa aðlagast mismunandi umhverfi en teljast samt til sömu tegundar er talað um afbrigði innan tegundar sem líta má á sem millistig í tegundamyndun. Með því að skoða afbrigði er hægt að rannsaka krafta sem hafa áhrif á fyrstu skref í tilurð tegunda. Hentugt kerfi til slíkra rannsókna er bleikjan í Þingvallavatni. Þar finnast fjögur afbrigði af bleikju (Salvelinus alpinus): Kuðungableikja, dvergbleikja, murta og sílableikja. Þar sem genatjáning í fósturþroska getur haft mikilvæg áhrif á svipgerðareiginleika hafa Jóhannes Guðbrandsson og samstarfsmenn hans rannsakað umritunarmengi í snemmfóstrum kuðungableikju, dvergbleikju og murtu og fundið fjölda stakra basabreytinga (SNPs) með mismunandi tíðni milli afbrigða. Í þessari rannsókn voru sex basabreytingar skoðaðar og tíðni þeirra metin í stofni. Vísar voru hannaðir og prófaðir á samtals 93 sýnum úr bleikjuafbrigðunum fjórum. KASP™ arfgerðagreining var framkvæmd til að afla upplýsinga um arfgerðir og tíðni samsæta fyrir hvern SNP innan hvers afbrigðis. Markmið rannsóknarinnar var að kanna i) hvort breytileikarnir væru raunverulegir, ii) hvort stofnarnir fjórir væru aðskildir og iii) hvort mun mætti finna á murtu og sílableikju. Einnig var kannað hvort iv) breytileikarnir erfðust óháð og v) hvort samband væri milli tíðni basabreytinga í stofni og í umritunarmengi. Allir breytileikarnir sem skoðaðir voru reyndust raunverulegir. Auk þess virtust stofnarnir vera aðskildir og erfðafræðilegur munur fannst á murtu og sílableikju. Flest genanna virtust erfast óháð hvort öðru sem bendir til þess að afbrigðin æxlist mjög sjaldan. Gott samband var milli tíðni í umritunarmengi og í stofni. Niðurstöðurnar voru á margan hátt áhugaverðar en í sumum tilfellum var þörf á aukinni sýnastærð fyrir áreiðanlegri niðurstöður.