Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster V11
Höfundar / Authors: Lea Jerman Plesec (1), Jóhannes Guðbrandsson (1), Arnar Pálsson (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Lea Jerman Plesec
Í nokkur ár hafa vísindamenn vitað að fylgni er á umritun gena sem liggja nálægt hverju öðru á litningum. Slíkar ""þyrpingar"" tveggja eða fleiri gena, geta verið undir stjórn sömu stjórnraða og þátta. Erfða eða umhverfisþættir hafa áhrif á tjáningu gena, og geta því einnig haft áhrif á samtjáningu ""genaþyrpinga"". Í þessu verkefni voru opinber gögn um genatjáningu úr mismunandi tilraunum notuð. Gagnasettin höfðu það sameiginlegt að vera frá vefjum ávaxtaflugunnar (Drosophila melanogaster), en höfðu gengist undir ólíkar meðhöndlanir í hverri rannsókn fyrir sig. Fyrst var fjöldi mistjáðra gena milli hópa reiknaður og því næst var athugað hvort mistjáðu genin væru í þyrpingum eða handahófskennt dreifð á litningum flugunnar. Umröðunarpróf var notað til að kanna hvort fleiri gen væru í þyrpingum væru fleiri en búast mætti við vegna tilviljunar og voru genin marktækt hnappdreifð í 15 af 17 samanburðum. Næst voru genaþyrpingarnar kannaðar með tilliti til stefnu genanna á litningum. Gögnin sýndu að algengara var að sjá nærliggjandi gen á sama þætti mistjáð í sömu átt (þ.e.a.s. með minnkaða eða aukna tjáningu), en gen á ólíkum þáttum voru oftar mistjáð í sitthvora áttina. Næst var kannað hvernig þyrpingar mistjáðra gena svöruðu náttúrulegu vali. Notast var við rannsókn á genatjáningu í flugustofnum sem urðu fyrir vali á vænglögun. Gögnin sýna að gen sem voru mistjáð í stofnum sem þróuðust í ólíkar áttir, voru einnig marktækt hnappdreifðari en búast mátti við. Næst voru notuð gögn úr seinni hluta sömu rannsóknar, þar sem þróuðu stofnunum var blandað saman og svo valið aftur fyrir sömu eiginleikum (en í 4 óháðum endurtekningum). Ef samtjáning gena nálægra gena hefur neikvæðar afleiðingar fyrir hæfni, mætti búast við því að genaþyrpingarnar væru færri og afmarkaðri í stofnunum í seinni hluta tilraunarinnar. Niðurstöðurnar benda til að samtjáning gena geti leitt til aukaverkana í þróun, en að náttúrulegt val geti hlutleyst slík áhrif með uppstokkun arfgerða og tíma.