Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster E35
Höfundar / Authors: Skúli Skúlason (1), Ása L. Aradóttir (2), Birna Lárusdóttir (3), Gísli Már Gíslason (4), Kristján Jónasson (5), Sólborg U. Pálsdóttir (6), Sólveig K. Pétursdóttir (7), Tómas G. Gunnarsson (8), Þorleifur Eiríksson (9), Þorvaldur Þórðarson (10), og Þorvarður Árnason (11)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Fiskeldis- og fiskalíffræðideild, Háskólinn á Hólum, 2. Auðlinda- og umhverfisdeild, Landbúnaðarháskóli Íslands, 3. Fornleifastofnun Íslands, 4. Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands, 5. Náttúrufræðistofnun Íslands, 6. Héraðsskjalasfn Skagfirðinga, 7. MATÍS, 8. Rannsóknasetur Háskóla Íslands Suðurlandi, 9. Náttúruminjasafn Íslands, 10. Jarðvísindadeild, Háskóli Íslands, 11. Rannsóknasetur Háskóla Íslands Hornafirði
Kynnir / Presenter: Skúli Skúlason
Krafan um vandað mat á verðmætum náttúrunnar verður sífellt háværari vegna mikilla, oft neikvæðra, áhrifa mannsins á umhverfi sitt. Þetta sést greinilega í lögum, reglum og áætlunum um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Meginvandinn við þetta verkefni er að í nútímasamfélögum eru þessi verðmæti fyrst og fremst skoðuð útfrá hagsmunum mannsins, í anda þess að maður og náttúra séu aðskilin fyrirbæri. Ofangreind krafa beinist aftur á móti að því að líta heildrænna á málin, gera ráð fyrir því að maðurinn sé hluti náttúrunnar, og meta verðmætin í ljósi þess. Stundum er reynt að meta heildræn og mannhverf verðmæti samhliða og samræma síðan niðurstöðuna með misjöfnum árangri. Vandinn við að meta heildræn verðmæti náttúrunnar felst m.a. í því að í samfélögum okkar okkur skortir fræðilegan grunn og aðferðafræði til að skoða okkur sem hluta náttúrunnar. Vistfræðileg nálgun, með áherslu á að meta fjölbreytni náttúrunnar, t.d. ákveðinna landsvæða, hefur skilað athyglisverðum árangri og má þróa enn frekar. Í fyrirlestrinum verður þetta reifað með áherslu á fræðilegar forsendur og reynslu höfunda af vinnu við verðmætamat landsvæða fyrir áætlun íslenskra stjórnvalda um vernd og orkunýtingu landsvæða, svokallaða rammaáætlun.