Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017
Erindi/veggspjald / Talk/poster E34
Höfundar / Authors: (1,2) Þorleifur Eiríksson, (1,2) Sigmundur Einarsson, (3) Tómas Grétar Gunnarsson & (4) Skúli Skúlason.
Starfsvettvangur / Affiliations: (1) Náttúruminjasafn Íslands, (2) RORUM, (3) Háskóli Íslands, (4) Hólaskóli.
Kynnir / Presenter: Þorleifur Eiríksson
Farið er yfir ferli við mat á náttúruverðmætum fallvatna og vatnasviðs þeirra. Matið er byggt á samþættri úrvinnslu á mati á jarðfræðilegri og líffræðilegri fjölbreytni ásamt fjölbreytni menningarminja. Matið var þróað í tengslum við þriðja áfanga rammaáætlunar. Sama ferli má jafnframt nota til að meta ætluð áhrif virkjunar á náttúruverðmæti viðkomandi vatnsfalls og þar með ætlað tap á náttúruverðmætum vegna virkjunarinnar.
Aðferðin byggist á því að skipta árfarvegum í smærri einingar þar sem skiptast á svæði sem einkennast af rofi annars vegar og setmyndun hins vegar, þ.e. gljúfur og gil annars vegar og lygn aurasvæði hins vegar. Slík skipting hefur góða samsvörun við skiptingu árinnar í vistkerfi og hið sama gildir næsta nágrenni árinnar.
Skiptingin hentar vel til að meta fjölbreytni á takmörkuðum svæðum innan vatnasviðs. Mismunandi viðföng eru metin í hverjum reit í samræmi við fjölbreytni hvers viðfangs. Viðföng eru síðan metin í heild með tilliti til eiginleika í einstökum reitum svæðisins.
Hægt að draga niðurstöður saman í einkunn sem gildir fyrir svæðið í heild. Þessi nálgun fellur vel að dreifingu á náttúru- og menningarverðmætum og auðvelt er að yfirfæra hana á aðra staðhætti og mismunandi stærð landssvæða.