Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster E13

Fækkun hvítfugls á Íslandi

Höfundar / Authors: Arnþór Garðarsson (1), Yann Kolbeinsson (2), Aðalsteinn Örn Snæþórsson (2), Árni Ásgeirsson (3), Böðvar Þórisson (4,5), Cristian Gallo(4), Erpur Snær Hansen(6), Ingvar A. Sigurðsson(6), Jón Einar Jónsson(3), Róbert A. Stefánsson(7), Sunna Björk Ragnarsdóttir(8) og Þorkell Lindberg Þórarinsson(2)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, 2. Náttúrustofa Norðausturlands, 3. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, 4. Náttúrustofa Vestfjarða, 5. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, 6. Náttúrustofa Suðurlands, 7. Náttúrustofa Vesturlands, 8. Náttúrustofa Suðvesturlands

Kynnir / Presenter: Arnþór Garðarsson

Tilvera Íslendinga grundvallast á gjöfulu hafsvæði sem nær þvert yfir N Atlantshaf nálægt mótum hlýrra og kaldra strauma. Svæðið stendur undir stórum stofnum fiska, sjávarspendýra og sjófugla.
Nýlegar kannanir sýna að um fjórðungur (miðað við lífþyngd) sjófugla í þessum heimshluta á sér heimkynni hér á landi.
Þekking á stærð stofns og stofnbreytingum er undirstaða margs konar rannsókna, m.a. á stofnvernd og vistkerfisbreytingum. Heildarkönnun fuglabjarga fór fram árin 1983-1986 og var endurtekin 2005-2008 og að nokkru 2009-2013. Um leið voru sett upp snið og staðir þar sem auðvelt var að gera árlegar samanburðartalningar á þremur tegundum svartfugls (Alcidae) og tveimur tegundum hvítfugls (fýls Fulmarus glacialis og ritu Rissa tridactyla). Hér er einungis fjallað um hvítfuglinn.
Fýll og rita (auk ýmissa fleiri sjófugla) lifa á yfirborðsæti, einkum smáfiski og krabbadýrum. Þær nýta einnig fiskúrgang frá skipum og landvinnslu. Heildarfjöldi fýls á Íslandi var metinn 1.300.000 pör kringum árið 2013. Heildarfjöldi ritu á landinu var 650.000 pör um árið 1985 og 580.000 um 2007. Báðum tegundum fækkaði frá aldamótum. Fækkunin kann að stafa af minnkandi æti sem veldur lélegri viðkomu.