Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V97
Rúna Björk Smáradóttir( 1), Stefan Bartram (2), Ana J. Russi Colmenares (1) og Ólafur S. Andrésson (1).
1. Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands. 2. Max-Planck-Institut für chemische Ökologie.
Kynnir / Presenter: Rúna Björk Smáradóttir
Tengiliður / Corresponding author: Ólafur S. Andrésson (osa@hi.is)
Ýmsir dreifkjörnungar geta afoxað tvínitur úr andrúmslofti og gert það þannig nýtanlegt til myndunar á lífrænum sameindum. Í norðlægum vistkerfum fer slíkt niturnám aðallega fram í blágrænbakteríum, t.d. af ættkvísl Nostoc, sem oft eru í samlífi með fléttum og mosum. Niturnámið fer aðallega fram í ensímflókum sem nýta frumefnið mólýbden en nýlega hefur fundist annað nítrogenasakerfi sem nýtir frumefnið vanadín. Ekki er ljóst hvert mikilvægi vanadín-nítrogenasakerfisins er í niturbúskap flétta og mosa og hvaða þættir stuðla að nýtingu þess fremur en hins ríkjandi mólýbden kerfis. Frumathugunar með ræktuðum Nostoc stofnum úr fléttum og mosum hafa sýnt að þeir halda vel niturnámsvirkni við lágt hitastig (5 °C), og að við mólýbdenskort lækkar hlutfall 15N samsætunnar miðað við 14N, en það endurspeglar virkni vanadín-nítrógenasa. Þessum athugunum hefur verið fylgt eftir með athugunum á 15N hlutfalli í himnuskóf (Peltigera membranacea) við ýmsar aðstæður, og í hluta af sýnunum er 15N hlutfallið marktækt lægra en búast má við af mólýbden-nitrógenasa. Jafnframt er hægt að greina tjáningu á genum vanadín-nítrógenasa með RT-PCR mælingu á RNAi úr fléttum. Fléttusýni sem bera merki niturnáms með hjálp vanadíns virðast ekki hafa lægri styrk mólýbdens en samanburðarsýni, og er skýringa nú leitað meðal annarra umhverfisþátta og mismunar í arfgerðum.