Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V6
Sölvi Rúnar Vignisson (1), Halldór Pálmar Halldórsson (2), Sólrún Sigurgeirsdóttir (3), Ástþór Gíslason (3)
1) Þekkingarsetur Suðurnesja 2) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum 3) Hafrannsóknastofnun
Kynnir / Presenter: Sölvi Rúnar Vignisson
Tengiliður / Corresponding author: Sölvi Rúnar Vignisson (solvi@thekkingarsetur.is)
Dýrasvif gegnir lykilhlutverki í vistkerfum sjávar og er grundvöllur uppvaxtar og viðgangs okkar verðmætustu fisktegunda. Þekking okkar á magni og útbreiðslu dýrasvifs er því afar mikilvæg og með verðmætustu upplýsingum sem sjávarútvegurinn þarfnast. Hefðbundin greining og úrvinnsla dýrasvifs í víðsjá er mjög tímafrek og dýr. Þetta hefur leitt til þess að vísindamenn hafa í auknum mæli leitað leiða til að greina dýrasvif á sjálfvirkan hátt með aðstoð tölvu. Sjálfvirk greining dýrasvifssýna gerist í tveimur þrepum. Fyrst eru sýnin skönnuð og þannig fengin rafræn mynd og í kjölfarið eru dýrin greind til helstu hópa á sjálfvirkan hátt með þar til gerðum hugbúnaði (ZooImage). Frá árinu 2007 hefur Hafrannsóknastofnun notað og þróað áfram þessa aðferð hér á landi. Síðastliðin tvö ár hefur stofnunin haldið áfram þeirri vinnu í samstarfi við Þekkingarsetur Suðurnesja og Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum. Sjálfvirk greining átusýna gefur upplýsingar um mergð eða fjölda helstu hópa dýrasvifs, en að auki fást upplýsingar um stærðardreifingar og lífmassa dýrasvifsins, sem eru mikilvægir vistfræðilegir þættir, sem ekki fást með beinum hætti með hefðbundinni úrvinnslu. Með sjálfvirkri greiningu er raunhæft að greina mikinn fjölda sýna frá víðáttumiklum hafsvæðum. Verkefnið eykur þannig skilning okkar á því hvernig breytileg umhverfisskilyrði í hafinu hafa áhrif á vöxt og viðgang dýrasvifs á Íslandsmiðum. Á tímum hnattrænna loftslagsbreytinga, sem við upplifum nú, eru þessi atriði sérlega mikilvæg.