Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V5
Sunna Björk Ragnarsdóttir (1), Sölvi Rúnar Vignisson (2), Íris Mýrdal Kristinsdóttir (2), Gunnar Þór Hallgrímsson (3), Halldór Pálmar Halldórsson (4)
1. Náttúrustofa Suðvesturlands, 2. Þekkingarsetur Suðurnesja, 3. Háskóli Íslands, 4. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum
Kynnir / Presenter: Sunna Björk Ragnarsdóttir
Tengiliður / Corresponding author: Sunna Björk Ragnarsdóttir (sunna@natturustofa.is)
Lítið sem ekkert er vitað um árstíðabundinn breytileika í stærð lífvera í fjöruvistum á Íslandi. Í yfirstandandi rannsóknum er sjónum beint að breytileika í stærð og fjölda fjörulífvera. Árið 2014 fóru fram mánaðarlegar sýnatökur í þangfjörum í Sandgerði á Reykjanesskaga til að kanna smádýrafánu á svæðinu. Tekin voru þangsýni bæði í klapparþangi (Fucus spiralis) og klóþangi (Ascophyllum nodosum) á tveimur stöðum sem hafa ólíka brimasemi. Smádýr í sýnunum voru greind niður í tegundir eða eins nákvæmlega og hægt var og voru valdar tegundir einnig stærðarmældar. Hæð allra snigla var mæld frá hæsta punkti hyrnu niður að lægsta punkti munna undir víðsjá. Hér eru birtar niðurstöður stærðarmælinga á þangdoppu (Littorina obtusata) og klettadoppu (Littorina saxatilis) af þessum mismunandi svæðum yfir 12 mánaða tímabil. Sýnt er hvar mestan breytileika er að finna í stærð og fjölda þessara tveggja dopputegunda og hvenær árs nýjar kynslóðir koma fram á sjónarsviðið.