Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V43
Karl Gunnarsson, Kristinn Guðmundsson, Sólveig R. Ólafsdóttir, Alice Benoit Cattin Breton
Hafrannsóknastofnun
Kynnir / Presenter: Karl Gunnarsson
Tengiliður / Corresponding author: Karl Gunnarsson (karl@hafro.is)
Kóralþörungasamfélög eru algeng inn á fjörðum á Vestur-, Norður- og Austurlandi og mynduð af lausum, greinóttum kóralþörungnum Lithothamnion tophiforme (Esper) Unger. Einkum þrjár aðrar tegundir kóralþörunga mynda hliðstæð samfélög við vesturströnd meginlands Evrópu. Vöxtur og kalkmyndun þeirra eru tiltölulega hæg. L. tophiforme er hánorræn tegund og er lítið sem ekkert vitað um vistfræði hennar. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvort framleiðni og kalkmyndun L. tophiforme-samfélagsins væru sambærileg því sem mælst hefur við Evrópu. Á 5 m dýpi, í innanverðu Ísafjarðardjúpi var hluti af botnsamfélaginu lokaður inn í gagnsæjan, hvolflaga akrílhjúp í 4 tíma í senn. Mæld var framleiðni, öndun (með svörtum hjúp) og kalkmyndunarhraði kóralþörungasamfélags auk hitastigs, seltu og ljóss við botn. Í upphafi og lok hverrar mælilotu voru tekin sýni til mælinga á súrefni, kolefni, lútstyrkur (alkalinity) og næringarefnum (N, P og Si). Yfirborðsljós var mælt við athugunarstaðinn samfellt í rúmt ár. Lifandi kóralþörungar mynda 5 til 15 cm þykkt lag ofan á tiltölulega þéttu seti, gerðu úr muldum greinum þörungsins. Þéttleiki kóralþörunga var mjög hár eða um 17 kg á fermetra. Framleiðni þörunganna mældist hins vegar mjög lág eða um 2 mmol súrefni á fermetra á dag í byrjun vaxtartímans í febrúar-mars og 53 mmol þegar framleiðni var mest um miðjan júní. Samanlögð framleiðni yfir árið var 211,2 g O2 m-2, sem samsvarar 66,1 g C m-2 og árleg kalkmyndun reyndist vera um 220 g CaCO3 m-2. Í samanburði við sambærilegar mælingar við strendur Evrópu er ljóst að L. tophiforme við Ísland vex óvenju hægt.