Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V42
Soffía Karen Magnúsdóttir (1), Halldór Pálmar Halldórsson (2), Sölvi Rúnar Vignisson (3), Sunna Björk Ragnarsdóttir (4), Hermann Dreki Guls (2), Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir (1,5)
1. Háskóli Íslands, 2. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum, 3. Þekkingarsetur Suðurnesja, 4. Náttúrustofa Suðvesturlands, 5. Svinna-verkfræði
Kynnir / Presenter: Soffía Karen Magnúsdóttir
Tengiliður / Corresponding author: Soffía Karen Magnúsdóttir (soffiakm@gmail.com)
Evrópuhumar (Homarus gammarus) er dýrt og eftirsótt sjávarfang. Hann er náskyldur ameríska humrinum (Homarus americanus) en hvorug þessara tegunda finnast við strendur Íslands. Eftirspurn eftir Evrópuhumri á mörkuðum er stöðug og villtir stofnar eiga undir högg að sækja, meðal annars vegna veiða. Hátt markaðsverð gerir humarinn að spennandi eldistegund og vegna þessa voru humrar fluttir til landsins í tilraunaskyni til að meta vaxtarhraða og lifun. Þar sem vaxtartilraunir geta verið bæði kostnaðarsamar og tímafrekar væri æskilegt að geta spáð fyrir um mögulegan mun á vexti dýranna við mismunandi eldisaðstæður á sem skemmstum tíma. Í þessum rannsóknum er látið reyna á spágildi vaxtarrýmis (scope for growth) hvað varðar vöxt Evrópuhumars við mismunandi ljóslotur. Ástand einstaklinga er metið út frá þyngd, öndun og fæðunámi og í kjölfarið er hægt að reikna út orkugildi sem eru borin saman á milli hópa. Aðferðinni hefur ekki verið beitt á Evrópuhumar áður en gæti bæði eflt og hraðað þeirri rannsóknarstarfsemi sem er nauðsynleg áður en ráðist yrði í stórskalaeldi. Ef aðferðin gefur góða mynd af framtíðarvexti humra er hægt að gera tilraunir með fleiri eldisþætti á skemmri tíma en áður hefur verið gert og auka þekkingu á tegundinni enn frekar. Hér eru kynntar fyrstu niðurstöður mælinganna auk þess sem farið er nánar yfir þá aðferðafræði sem notuð er í rannsóknunum.