Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V34
Árni Ásgeirsson (1), Jón Einar Jónsson (1)
1. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi
Kynnir / Presenter: Árni Ásgeirsson
Tengiliður / Corresponding author: Árni Ásgeirsson (ara17@hi.is)
Breytingar á varpi æðarfugls eftir landnám minks í Brokey Árni Ásgeirsson og Jón Einar Jónsson Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi (poster) Rík hefð er fyrir því að æðarbændur skrái niður fjölda hreiðra æðarfugls innan varpsvæða sinna ár hvert, um leið og farið er í dúnleitir. Í Brokey á suðursvæði Breiðafjarðar er ein lengsta samfellda skráning á fjölda æðarhreiðra. Þar var skráður fjöldi hreiðra frá 1892-2014 . Skráningin er nákvæm, t.d. er skráð varp í hverri eyju og hólma fyrir sig og fjöldi eyja með 0 hreiður er líka skráður. Brokey fylgja vel yfir 100 eyjar og hólmar. Fjöldi æðarhreiðra breyttist mikið yfir þennan langa tíma. Fyrstu 17 ár skráningana var æðarvarpið nokkuð stöðugt, frá 1700 til 2500 hreiður en dróst mikið saman frá árunum 1927 til 1980 og var minnst rétt rúm 200 hreiður. Hreiðrum fjölgaði 1980-1991 um 1600 hreiður en fækkaði eftir það og í dag stendur varpið í um 1000 hreiðrum. Minkur kom fyrst í Brokey 1948 og sést munur á fjölda hreiðra fyrir og eftir 1948 á þrennan máta: 1) árunum eftir mink i Brokey fækkaði hreiðrum í litlum eyjum og nánast öllum smærri hólmum, þ.e. áður en minkur nam land á svæðinu voru um 10 svæði (hólmar og eyjar) þar sem engar kollur urpu en eftir landnám minks fjölgaði þessum svæðum og urðu þau flest 63 svæði árið 1981. 2) Fyrir landnám minks var engin fylgni milli stærðar eyju og fjölda æðarhreiðra (R2=0,20) en eftir landnám minks er um línulegt samband að ræða (R2=0,95). 3) Hlutfall hreiðra í hverri eyju var nokkuð stöðugur 1892-1947 en sveiflaðist mun meira 1948-2010.