Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015
Erindi/veggspjald / Talk/poster V33
Árni Ásgeirsson (1), Aldís Erna Pálsdóttir (2), Jón Einar Jónsson (1)
1. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, 2. Háskóli Íslands, Líf- og Umhverfisvísindadeild
Kynnir / Presenter: Árni Ásgeirsson, Aldís Erna Pálsdóttir, Jón Einar Jónsson
Tengiliður / Corresponding author: Árni Ásgeirsson (ara17@hi.is)
Myndavélar búnar hreyfiskynjurum eru í auknum mæli notaðar við vistfræðirannsóknir. Notkun þeirra getur bæði sparað tíma og minnkað mannafla sem þarf til slíkra rannsókna en um leið aukið áreiðanleika þeirra. Markmið þessarar rannsóknar var að beita slíkum myndavélum til að vakta varp æðarfugla sumrin 2014 og 2015 en með þessari aðferð lágmarkast truflun við hreiður. Rannsóknin fór fram í 4 eyjum á Breiðafirði. Myndavélarnar voru stilltar þannig að þær tækju myndir með fyrirfram ákveðnu bili (oftast 15 mínútur) og einnig við hreyfingu. Út frá myndunum var hægt að meta áleguhlé, þ.e. hversu oft og hversu lengi kollurnar fóru af hreiðrum sínum yfir álegutímann og einnig hvort aðrar fuglategundir heimsóttu hreiðrin. Loks var hægt að greina nákvæmlega hver afdrif hreiðurs voru, hvort eggjunum væri rænt eða hvort kollan næði að leiða út unga sína. Áleguhlé voru mislöng, þau styðstu 4 mín en þau lengstu allt að 40 mín. Kollur tóku lengri hlé frá álegu ef þær voru fældar af en yfirleitt var það af mannavöldum. Allir afránsatburðir sem náðust á mynd voru af völdum flugafræningja þó þekkt sé að minkur komist í rannsóknareyjarnar. Sílamáfur, svartbakur og hrafn voru einu afræningjarnir og rændi svartbakur flestum eggjum. Algengt var að aðrar æðarkollur og í einstaka tilfellum gæsir heimsæktu hreiðrin en það virtist ekki hafa nein áhrif á afdrif þeirra. Heimsóknir æðarblika að hreiðrum voru nokkuð tíðar og jafnvel voru þess dæmi að blikar settust á hreiður kollna þegar þær tóku áleguhlé.