Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V31

Fæðuatferli heiðlóu utan varptíma

Elísa Skúladóttir (1), Gunnar Þór Hallgrímsson (1) og Tómas Grétar Gunnarsson (2)

1. Háskóli Íslands, Líf- og Umhverfisvísindadeild 2.Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi

Kynnir / Presenter: Elísa Skúladóttir

Tengiliður / Corresponding author: Elísa Skúladóttir (els31@hi.is)

Ísland gegnir mikilvægu hlutverki sem varpsvæði fyrir mófuglastofna. Flestar tegundir mófugla eru farfuglar sem þurfa búsvæði til að byggja sig upp fyrir varp að loknu farflugi og eins til að undirbúa flug aftur til vetrarstöðva á haustin. Aðgengi að hentugum búsvæðum til fæðunáms á vorin og haustin er því mikilvægur þáttur í lífsferli þeirra. Þekking á búsvæðum sem mófuglar reiða sig á utan varptíma og hvernig fuglarnir nota þau er mikilvægur þáttur þegar kemur að vernd mófugla á Íslandi. Heiðlóan (Pluvialis apricaria) er einn algengasti mófugl landsins og hér verpa um 300.000 pör sem er um 50 % af evrópska stofninum. Lítið er vitað um þau svæði sem heiðlóur reiða sig á til fæðunáms utan varptíma. Markmið rannsóknarinnar er að mæla búsvæðaval heiðlóu utan varptíma. Kynntar eru frumniðurstöður sem sýna fæðuatferli lóuhópa innan mismunandi búsvæða. Mat er lagt á gæði þessara búsvæða fyrir lóur með því að skoða fjölda fugla sem nýta sér þau og árangur þeirra við fæðuöflun. Niðurstöðurnar nýtast við gerð verndaráætlana fyrir mófugla og eru innlegg í umræðu um skipulag landnotkunar.