Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V28

Fuglaflensur á Íslandi

Gunnar Þór Hallgrímsson (1), Jeffrey S. Hall (2) , Robert J. Dusek (2)

1. University of Iceland, Department of Life and Environmental Sciences, 2. U.S. Geological Survey, National Wildlife Health Center

Kynnir / Presenter: Gunnar Þór Hallgrímsson

Tengiliður / Corresponding author: Gunnar Þór Hallgrímsson (gunnih@hi.is)

Fuglaflensur hafa mikið verið í umræðunni síðastliðinn áratug vegna hættu á svæsnum stofnum þeirra fyrir alifugla og menn. Vægar fuglaflensur virðast nokkuð algengar í fuglum sumsstaðar erlendis, sérstaklega á meðal vatnafugla. Á sumum svæðum í N-Ameríku hafa slíkar veirur fundist í allt að 30% andfugla sem skotnir eru að haustlagi. Það er ekki hægt að sjá á útliti fuglanna hvort þeir eru með þessar vægari gerðir flensuveira því fuglar sýna yfirleitt ekki einkenni vanmáttar fyrr en þeir eru orðnir mjög illa haldnir. Frá 2009 hafa rannsóknir beinst að tíðni og gerðum fuglaflensuveira í gæsum, öndum, máfum og vaðfuglum á Íslandi. Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að í andfuglum fundust eingöngu evrópskar fuglaflensuveirur en í mávum mátti bæði finna veirur frá Evrópu og Norður-Ameríku ásamt blöndu veira frá þessum tveimur heimsálfum. Þetta er í fyrsta sinn sem veirustofnar frá þessum heimsálfum finnast á sama stað á sama tíma. Það bendir til þess að á Íslandi sé að finna aðstæður fyrir blöndun fuglaflensuveira. Stórir hópar farfugla eiga hér viðdvöl ár hvert á leið sinni milli varpsvæða í Kanada og á Grænlandi og vetrarstöðva í NV-Evrópu og allt suður til SV-Afríku. Niðurstöðurnar benda jafnframt til þess að fuglaflensuveirur geti borist frá Evrópu og Asíu til Norður-Ameríku um Ísland en áður var einkum talið að þær gætu borist um Alsaka. Á meðal sumra vaðfuglategunda sem hafa viðkomu í íslenskum fjörum er hátt hlutfall sem hefur mótefni gegn fuglaflensum. Vorið 2012 fannst t.d. mótefni við fuglaflensum í 85% tildra (Arenaria interpres) í fjörum á Reykjanesskaga og árið eftir fundust mótefni í 66% þeirra sem veiddust. Þá fundust áhugaverðar flensuveirur t.d. væg gerð af H5N1 í fyrsta skiptið hérlendis en sá stofn hefur vakið mikla athygli um allan heim. Ljóst er að skoða þarf útbreiðslu og tíðni fuglaflensu mun betur í fuglum á Íslandi og athuga hvort flensurnar hafi áhrif á heilbrigði og lífshætti fuglanna.